Árið 2014 var hlýjasta ár að meðaltali á Jörðinni síðan mælingar hófust árið 1880. Það þýðir að öll ár 21. aldarinnar raða sér á lista fimmtán hlýjustu ára sögunnar. Aðeins árið 1998 kemst einnig á þann lista.
Ársmeðalhiti ársins 2014 var 0,69°c yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar sem er 13,9°c. Síðustu hitamet á ársgrundvelli voru sett árin 2005 og 2010. Síðasta ár sló þau met myndarlega með 0,04°c mun. Árið 2014 er jafnframt 38. árið í röð þar sem meðalhitinn er yfir meðalhita 20. aldar.
Jafnframt þykir merkilegt að hitametið hafi fallið árið sem ekkert El Niño eykur hitastigið í andrúmsloftinu. El Niño er veðurafbrigði í Kyrrahafinu sem verður fjórða eða sjötta hvert ár og veldur hlýnun á áhrifasvæði sínu um eina til þrjár gráður. Fyrri hitamet hafa flest fallið á El Niño-ári.
Þetta kemur veður- og loftslagsfræðingum þó ekkert ofboðslega á óvart því, eins og Kjarninn greindi frá í nóvember, var meðallofthiti Jarðar í október sá mesti í sögunni ásamt október 2005. Ef ársmetið átti ekki að falla hefðu nóvember og desember þurft að verða einkar kaldir.
Úrkoma á árinu 2014 var nærri meðaltali síðustu ára en undir meðaltali lengra tímabils. Loftslagsstofunun Bandaríkjanna segir þetta vera þriðja árið í röð þar sem úrkoma sé nærri meðaltölum í mælingum á landi. Eðlilegt sé þó að úrkomumagn sé mismunandi milli svæða eins og raunin var í fyrra.
Í þessu tilliti er, til dæmis, hægt að minnast á mikla gróðurelda sem geisuðu í Kaliforníu allt árið. Þar var útkoma eins lítil og hún hefur nokkurn tíma verið þannig að forsendur fyrir gróðurelda voru verulega góðar.
Gríðarmiklir gróðureldar geisuðu í Kaliforníu í Bandaríkjunum á síðasta ári vegna þurrka. Rúmlega 2,5 ferkílómetra stórt landsvæði brann. Tveir létust vegna eldanna á síðasta ári.
Undirbúa sáttmála í París
Hinn 9. febrúar næstkomandi munu samningaviðræður fyrir loftslagsráðstefnuna í París halda áfram í Genf í Sviss. Í París eru vonir bundnar við að hægt verði að skrifa undir loftslagssáttmála allra þjóða. Þar er ætlunin að sameinast um nauðsynleg skref til að hægja á og á endanum stöðva hlýnun Jarðar.
Ráðstefnan í París verður haldin í desember. Ekki hafa verið bundnar jafn miklar væntingar við árlega loftslagsráðstefnu síðan Kaupamannahöfn tók á móti ráðstefnugestum árið 2009. Undir lok ráðstefnunnar það árið hrundu allar áætlanir um samkomulag vegna ósættis milli ríkari og fátækari þjóða.
Dönskum stjórnendum fundarins var að mestu kennt um hvernig fór enda þótti þeim farnast illa að stýra umræðunum frá sprengjusvæði stéttaskiptingar í heiminum. Alþjóðasamfélaginu þykja Frakkar öllu liprari í þessu hlutverki og þess vegna er gert ráð fyrir að betur gangi í samkomulagsátt í ár.
Nánar verður fjallað um hlýnun Jarðar í Þætti um kúl hluti í Hlaðvarpi Kjarnans á þriðjudag 3. febrúar.
Danir stjórnuðu lofslagsráðstefnunni í Kaupamannahöfn 2009 en þótti alls ekki hafa tekist nógu vel til. Lars Løkke Rasmussen var þá forsætisráðherra Danmerkur og tók sjálfur að sér fundarstjórn þegar allt hafði silgt í strand.