Uppstillingarnefnd Eflingar hefur gert tillögu að A-lista stjórnar félagsins og er Ólöf Helga Adolfsdóttir formannsefni þess lista. Tillagan á eftir að fara fyrir stjórnarfund á fimmtudag og trúnaðarráð í kjölfarið og á fundi ráðsins ætlar Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, að leggja fram eigin lista, þ.e. annan valkost við A-lista uppstillingarnefndar.
Enn gætu svo fleiri listar átt eftir að koma fram en árið 2018 lagði hópur félagsmanna fram B-lista með Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem formannsefni. Guðmundur var einnig á þeim lista sem var svo kjörinn.
Þetta var meðal þess sem kom fram í Rauða borðinu, þætti Gunnars Smára Egilssonar formanns Sósíalistaflokksins, í gær en gestir hans voru þau Ólöf og Guðmundur.
Ólöf Helga var trúnaðarmaður í hlaðdeild Icelandair er henni var sagt upp störfum í ágúst. Hún var valin varaformaður Eflingar af stjórn félagsins eftir að Sólveig Anna sagði af sér sem formaður í byrjun vetrar og þáverandi varaformaður, Agnieszka Ewa Ziólkowska, varð formaður.
Umræðuefni Rauða borðsins voru áherslur þeirra tveggja enda höfðu þau bæði lýst yfir áhuga á að verða formenn Eflingar. „Uppstillingarnefnd er búin að setja upp lista sem hún ætlar að leggja til,“ sagði Ólöf Helga á einum tímapunkti í þættinum. „Svo mun stjórnin fara yfir þennan lista á fundi á fimmtudag og svo trúnaðarráð í kjölfarið“
Gunnar Smári, sem er vanur fjölmiðlamaður greip þetta á lofti og spurði: „Veistu hver listinn er?“
Ólöf: „Já, ég er búin að sjá hann.“
Gunnar: „Og hver er í efsta sæti á þessum lista?“
Ólöf sagðist þá ekki tilbúin að greina frá því að svo stöddu.
Gunnar: „Guðmundur, ert þú búinn að sjá listann?“
Guðmundur: „Já, ég veit hvernig hann er. Ég veit hver er valinn formaður fyrir A-listann. Ég get bara sagt það að það er ekki ég.“
Gunnar: „Það er ekki þú? Þannig að við erum bara þrjú hérna og ég get sagt að það er ekki ég. Þannig að það ert bara þú, Ólöf Helga.“
Ólöf: „Eins og ég kom inn á þá mun listinn fara fyrir stjórn og svo trúnaðarráð þar sem allt getur gerst. Það getur hvaða félagsmaður sem er staðið upp og boðið sig fram til formanns. Þannig að þó að ég sé á listanum núna þá er það ekki [öruggt].“
Gunnar Smári spurði þá Guðmund hvernig hann ætlaði að bregðast við þessu. „Ég get upplýst þig um það Gunnar að við ætlum að setja fram sér lista. Já, við ætlum að gera það.“
Sá listi verði valmöguleiki við A-lista uppstillingarnefndarinnar og trúnaðarráðs að velja á milli þeirra á fundi sínum. Gunnar Smári nefndi þá þann mögulega að einhver annar hópur gæti komið fram með B-lista, svipað því sem gerðist árið 2018. „Búist þið við því? Búist þið við því að Sólveig Anna komi aftur með B-lista?“ spurði Gunnar þau bæði.
„Ég veit að ekki,“ svaraði Ólöf Helga. „En ég fagna því að það séu fleiri valkostir fyrir félagsmenn okkar.“
„Ég svo sem geri mér enga grein fyrir því hvað Sólveig Anna er að hugsa,“ svaraði Guðmundur. „Hún hefur lítið tjáð sig opinberlega þannig að satt að segja hef ég ekki hugmynd um það.“
Áherslumálin rædd
Í þættinum spurði Gunnar þau bæði út í þeirra áherslumál.
„Við eigum enn langt í að koma til móts við erlenda félagsmenn okkar,“ sagði Ólöf Helga, er Gunnar Smári spurði hana hvað þyrfti að laga innan Eflingar að hennar mati. Meira en helmingur félagsmanna eru af erlendu bergi brotnu. Nefndi hún m.a. túlkaþjónustuna sem þyrfti að bæta enda óásættanlegt að ætlast til þess að aðstandendur félagsmanna væru að túlka fyrir þá. Fræðslumálin voru henni einnig ofarlega í huga. Þá sagði hún eflaust tímabært að endurskoða lög Eflingar.
„Við vorum á ljómandi góðri leið með Eflingu, að breyta ýmsu,“ sagði Guðmundur og vísaði þar m.a. til fræðslu og aðgengis fyrir félagsmenn af erlendum uppruna. Hann segist hafa sagt í kosningabaráttunni 2018 að Efling væri sofandi risi og að það væri tími til kominn að hann vaknaði. „Og hann hefur sannarlega gert það á ýmsum sviðum.“
Gunnar: „Þannig að þú ert að tala um að halda áfram því starfi sem Sólveig Anna leiddi?“
„Að sjálfsögðu,“ svaraði Guðmundur. „Því hún var á ljómandi góðri leið með félagið. Það er engin ástæða til að víkja af þeirri leið.“
Efling sé róttækt verkalýðsfélag
Gunnar spurði svo Ólöfu hvernig hún sjái fyrir sér að Efling muni leiða áfram íslenska verkalýðsbaráttu. „Mér finnst mikilvægt að Efling sé róttækt stéttarfélag,“ svaraði Ólöf. „Ég vil líka horfa á samvinnu milli verkalýðsfélaga og stéttarfélaga á Íslandi. Af því að við erum náttúrlega sterkari saman. Það er styrkur í fjöldanum.“
Þá var hún spurð hvað fælist í þeim orðum hennar að Efling yrði að vera „róttækt verkalýðsfélag“ og sagði Ólöf að Efling yrði að vera „tilbúin að taka slaginn. Við þurfum að skoða hlutina mjög vel, koma með nýjar hugmyndir og nýjar áherslur og ekki vera feimin að beita þeim vopnum sem að við höfum.“
Vill afsláttarkjör fyrir félagsmenn
Guðmundur sagðist sammála því að Efling ætti að vera óhrætt við að beita verkföllum og öðrum vopnum. Hann sagðist einnig taka undir með Ólöfu að styrkurinn fælist í samvinnu við önnur félög í kjarabaráttunni framundan. Hann nefndi svo einnig að reyna ætti að „kría út“ eins mikið af aflsáttarkjörum fyrir félagsmenn Eflingar og hægt væri, t.d. hjá matvöruverslunum og olíufélögum.
Gunnar Smári greip þessa hugmynd Guðmundar á lofti og spurði hvort það væri ekki hættulegt að semja t.d. við matvörurisa um afsláttarkjör en vera á sama tíma að semja um kaup og kjör við þetta fyrirtæki. Guðmundur hafði ekki miklar áhyggjur af því og tók sem dæmi að félagsmönnum Sameykis byðust ýmis afsláttarkjör, t.d. í Bláa lóninu.
„En Sameyki er félag hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga þannig að þeir eru ekki að semja við Bláa lónið eða þá sem gefa afsláttinn,“ sagði Gunnar þá.
„Ég veit það, svaraði Guðmundur. „Þó að við séum Gunnar að semja um svona afsláttarkjör þá eiga þeir ekkert inni hjá okkur í staðinn. Það er ekkert svoleiðis.“
Hér getur þú horft á þáttinn í heild: