Álag á sjúkrahúsum í Bretlandi er mjög mikið um þessar mundir og nýting þjónustunnar sem hægt er að veita um 95 prósent. Það má því ekki mikið út af bregða þar í landi líkt og víða annars staðar í heiminum. Heilbrigðisráðherra landsins, Sajid Javid, segir að enginn sjúklingur smitaður af ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafi látist svo vitað sé en innan við mánuður er síðan afbrigðið greindist og því enn mikil óvissa um áhrif þess á fólk.
Að minnsta kosti tíu sjúklingar sem greinst hafa með ómíkrón liggja inni á sjúkrahúsum á Englandi. Javid leggur áherslu á að þótt í ljós komi að afbrigðið valdi mildari einkennum en delta-afbrigðið gæti fjöldi tilfella engu að síður sligað heilbrigðiskerfið.
Forstjóri NHS, ríkissjúkrahúsa Bretlands, segir að vegna faraldurs COVID-19 hafi þurft að fækka rúmum á spítölum um 30 prósent til að draga úr sýkingarhættu. Hann vakti ennfremur athygli á því í viðtali við Sky-fréttastofuna að sá árstími sem nú fari í hönd, mestu vetrarmánuðirnir, sé alltaf álagstími vegna margvíslegra þátta á borð við slys og alls lags veikindi. Þetta sé að gerast á sama tíma og ómíkron sé að dreifa sér um landið og þeirri óvissu sem því fylgir.
Heilbrigðisráðherrann segir að ómíkron sé að dreifa sér á „gífurlegum hraða“. Útbreiðslan sé „fordæmalaus“. Javid segir að margir haldi því fram að ómíkron valdi vægari einkennum en það eigi einfaldlega eftir að koma í ljós. „Og jafnvel þótt að þau séu vægari þá þarf aðeins lítið hlutfall sjúklinga að fá alvarleg einkenni svo að fjöldi þeirra verði mikill.“ Hann minnti einnig á að ef álagið á sjúkrahúsin aukist enn frekar verði að grípa til aðgerða, m.a. að fresta skurðaðgerðum og rannsóknum.
Rannsóknir þykja benda til að þríbólusetning, þ.e. þrír skammtar af bóluefnum sem þegar eru á markaði, veiti umtalsvert betri vörn en tvíbólusetning. Þá benda rannsóknir einnig til að þríbólusetning verji fólk mun betur gegn ómíkrón.
Örvunarherferðir eru hafnar víða á Vesturlöndum. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hvatti landa sína til að þiggja slíka bólusetningu í ávarpi sem hann flutti í gærkvöldi.
Tæplega 136 þúsund manns hafa þegið örvunarbólusetningu á Íslandi.