Stefnt gæti í verkfallahrynu opinberra starfsmanna í Bretlandi svipaða þeirri sem varð á áttunda áratug síðustu aldar, bregðist stjórnvöld ekki við. Starfsfólk breska járnbrautarkerfisins er á leið í verkfall sem mun lama helming leiðarkerfisins í strax í næstu viku og útlit er fyrir að verkföll bæði kennara og heilbrigðisstarfsfólks gætu fylgt í kjölfarið.
Um er að ræða verkföll vegna kröfu um launahækkanir opinberra starfsmanna í samræmi við verðbólgu, sem hefur farið upp úr öllu valdi í Bretlandi líkt og víða annars staðar vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Verðbólgan í Bretlandi mælist nú um 9,2%, en breski seðlabankinn hefur varað við því að hún gæti náð allt að 11% í haust.
Verkföll starfsfólk breska járnbrautarkerfisins eru fyrirhuguð á þriðjudag, fimmtudag og laugardag í vikunni sem hefst á morgun, en nú hafa stærstu kennarasamtök Bretlands tilkynnt að bjóðist kennurum ekki launahækkun í betra samræmi við verðbólguna fyrir miðvikudaginn muni félagið tilkynni menntamálaráðherra Bretlands að boðað verði til atkvæðagreiðslu innan félagsins um hugsanlegar verkfallsaðgerðir í haust.
Þá gætu fleiri stórtíðindi verið á leiðinni þegar starfsfólki breska heilbrigðiskerfisins NHS verða kynntar árlegar launahækkanir í vikunni, en útlit er fyrir að þær verði mun lægri en verðbólgan. Talsmenn stéttarfélags heilbrigðisstarfsfólks segja tvennt í stöðunni fyrir bresk stjórnvöld: að bjóða heilbrigðisstarfsfólki sanngjarnar kjarabætur í samræmi við verðbólguna eða horfa upp á fjöldauppsagnir og hugsanlegar verkfallsaðgerðir innan heilbrigðiskerfis sem þegar sé þanið.
Talið er að bresk yfirvöld hyggist bjóða heilbrigðisstarfsfólki, kennurum og milljónum annarra opinberra starfsmanna 3 til 4 prósenta launahækkanir, en betur má ef duga skal þegar verðbólga í landinu er yfir 9%, segja sérfræðingar. Þá harðnaði gagnrýnin, sem og líkurnar á fjöldaverkföllum, talsvert þegar seðlabankinn spáði fyrir um allt að 11% verðbólgu á árinu.
Þúsundir komu saman í miðborg London í gær til að krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að koma til móts við hækkandi framfærslukostnað. Tveir viðmælendur The Guardian sögðu fjölda skólabarna ekki fá nóg að borða heima hjá sér og að foreldrar þyrftu að velja á milli þess að gefa börnunum sínum að borða, ekki sjálfum sér, og að borga leigu.