Hvammsvirkjun, virkjun sem deilt hefur verið um í árafjöld, er einu stóru skrefi nær því að verða að veruleika með nýútgefnu virkjunarleyfi Orkustofnunar. Næsta skref er að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna tveggja sem virkjunin yrði innan; Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Samhliða verða útboð framkvæmdaþátta undirbúin. Þá þarf einnig samþykki stjórnar Landsvirkjunar fyrir framkvæmdinni áður en hægt er að hefjast handa.
Ef öll þessi mál fá jákvæða umfjöllun gæti bygging virkjunarinnar, sem yrði sú sjöunda á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, hafist um mitt næsta ár.
Hvammsvirkjun verður 95 MW að afli. Áin verður stífluð með 350 metra langri og allt að 18 metra hárri jarðvegsstíflu og við hana mun myndast fjögurra ferkílómetra lón.
Frá stíflu, er samkvæmt virkjunarleyfi Orkustofnunar, heimilt að veita allt að 352 rúmmetrum vatns á sekúndu (m3/s) til stöðvarhúss sem verður að mestu niðurgrafið. Frá stöðvarhúsi mun vatnið renna um 2 kílómetra löng göng og síðan 1,2 kílómetra langan skurð aftur í Þjórsá fyrir neðan Ölmóðsey. Við Ölmóðsey verður önnur stífla, 150 metra löng, sem mun beina vatni frá yfirfalli vestur yfir eyna.
Með tilkomu lónsins mun fjölbreytt landslag við ána og bakka hennar breytast. Eyjur, hólmar og flúðir fara á kaf ofan stíflunnar og á um þriggja kílómetra kafla neðan hennar, þar sem hina sérstæðu og friðuðu Viðey er að finna, mun vatnsrennsli minnka verulega. Samkvæmt sértæku skilyrði í virkjunarleyfi Orkustofnunar ber Landsvirkjun að tryggja rennsli 10 rúmmetra vatns á sekúndu hið minnsta, í farvegi árinnar frá stíflu og að enda frárennslisskurðar. Á göngutíma seiða laxfiska ber fyrirtækinu auk þess að hafa seiðafleytu opna í samræmi við áætlun þar að lútandi.
Annað sértækt skilyrði sem er að finna í virkjunarleyfinu felur í sér að Landsvirkjun skuli tryggja samrekstur Hvammsvirkjunar og annarra vatnsaflsvirkjana og vatnsmiðlana á vatnasviðum Tungnaár og Þjórsár með það fyrir augum að tryggja hagkvæma nýtingu vatnsauðlindarinnar.
Með Hvammsvirkjun verða þær orðnar sjö talsins, virkjanirnar á einu stærsta orkuvinnslusvæði landsins. Upptök vatnsins sem er nýtt í flókið kerfi virkjana og uppistöðulóna Landsvirkjunar eru í Hofsjökli og Vatnajökli.
Og það eru fleiri á teikniborðinu. Landsvirkjun hefur um árabil áformað fleiri virkjanir í neðri hluta Þjórsár, fyrir utan þá sem fyrirtækið vill reisa ofan allra hinna: Kjalölduveitu.
Þá er einnig stefnt að stækkun þriggja virkjana á svæðinu.
Athuganir á hagkvæmni virkjana í neðanverðri Þjórsá hófust árið 1999. Ýmist tvær eða þrjár virkjanir voru þá nefndar; Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun eða Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun. Árið 2003 kom út skýrsla um mat á umhverfisáhrifum allra þessara kosta. Metin voru áhrif virkjunar við Núp í einu skrefi (Núpsvirkjun) og í tveimur skrefum (Holta- og Hvammsvirkjun).
Mikil andstaða var við þessi áform og að auki breyttust ýmsar forsendur í þjóðfélaginu sem urðu til þess að Landsvirkjun setti þau á ís. Kárahnjúkavirkjun, sú langstærsta sem finna má á Íslandi, var reist á fyrstu árum aldarinnar og um það leyti hófst vinna við áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svonefnda rammaáætlun, þar sem virkjanakostir eru flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk.
Árið 2013 var tekin ákvörðun á Alþingi um að Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun færu í biðflokk, m.a. vegna óvissu um áhrif á laxfiska í Þjórsá.
En tveimur árum síðar, í byrjun sumars 2015, samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að færa Hvammsvirkjun eina og sér í orkunýtingarflokk. Í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar, sem fyrst var lögð fram á þingi árið 2016, var svo lagt til að hinar tvær virkjanahugmyndirnar, Holta- og Urriðafossvirkjun, yrðu einnig færðar úr biðflokki í orkunýtingarflokk.
Tillagan var loks afgreidd á Alþingi í en horfið var frá því að færa neðri hugmyndirnar tvær í nýtingarflokk. „Óhætt er að segja að tillögur um flokkun Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar í nýtingarflokk hafa vakið reiði í nærsamfélaginu“ enda um að ræða „stórar virkjunarhugmyndir í byggð,“ sagði í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem fjallaði um þingsályktunartillöguna í vor. Í álitinu sagði einnig að mikilvægt væri að horfa til neðri hluta Þjórsár „sem eina heild“ og því beint til ráðherra og verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar að horfa til „allra þriggja virkjanakosta“ í neðri hluta Þjórsár við það mat.
Hvaða þýðingu þau orð hafa er algjörlega óljóst á þessum tímapunkti.
Hugmyndin um Hvammsvirkjun hefur ekki hugnast mörgu fólki í nágrenni Þjórsá. Heimafólk hefur m.a. nefnt að með virkjuninni muni árniðurinn við bæi þeirra þagna, niður sem umleikið hefur veröld þeirra og forfeðranna í aldir. Þá hafa þeir sagt að nóg sé komið af virkjunum á þessu svæði.