Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar segir að enn sé óteljandi spurningum ósvarað varðandi Íslandsbankasöluna og að það sé eðlileg krafa að Alþingi komi strax saman og hefjist handa við að setja á fót óháða rannsóknarnefnd til að fara yfir alla þætti málsins.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í dag.
Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra tjáði sig um málið fyrr í dag og fjallaði um lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og þáverandi fjármálaráðherra mælti fyrir.
Ráðherrann sagði að markmiðið með lögunum hefði verið að fela framkvæmdina sérstakri ríkisstofnun til að tryggja hlutlægni við framkvæmdina. Hann telur að það sé fróðlegt að skoða framsöguræðu Oddnýjar við þetta tilefni en þar segir: „Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð verði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.“
Vísaði hann ennfremur í greinargerðina með frumvarpinu þar sem segir að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta og að sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll sé ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. „Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram,“ segir í greinargerðinni.
Ráðherrann telur því að ekki þurfi að hafa mörg orð um að málflutningur stjórnarandstæðinga sé beinlínis rangur.
Ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboði skuli tekið eftir að hafa fengið rökstutt mat frá Bankasýslunni
Jóhann Páll vísar sömuleiðis í þessi lög í stöðuuppfærslu sinni og bendir á að í fjórðu grein laganna sé kveðið á um að ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboði skuli tekið eftir að hafa fengið rökstutt mat frá Bankasýslunni á þeim tilboðum sem berast í tiltekna eignarhluti.
Hann greinir frá því að í minnisblaði Bankasýslunnar til ráðherra frá 20. janúar sem lagt var fyrir þingnefndir segi að „ráðherra [verði] upplýstur að fullu leyti um hverja sölu, enda þarf samþykki hans fyrir söluverði og sölumagni í hvert skipti sem eignarhlutir ríkisins í bankanum eru framseldir til annarra eiganda“.
„Eftir söluna, sem ráðherra og stjórnarliðar hreyktu sér af dögum saman meðan við í stjórnarandstöðunni bentum á ýmislegt sem orkaði tvímælis, birti svo fjármálaráðuneytið tilkynningu þar sem fram kemur að „upplýsingar um tilboð eða tilboðsgjafa voru aldrei bornar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið“.
Hvernig gat ráðherra tekið upplýsta ákvörðun um hvort gengið yrði að tilboðum, og hvernig gat ráðherra tekið afstöðu til rökstudda matsins frá Bankasýslunni án þess að búa yfir upplýsingum um tilboð og tilboðsgjafa og máta þær grunnupplýsingar við forskriftina sem hann gaf Bankasýslunni um söluna og markmiðin sem sala verður að uppfylla samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum?“ spyr þingmaðurinn.
Jóhann Páll spyr jafnframt hvers vegna ráðherra og ráðuneytið hafi ekki leiðrétt þær upplýsingar sem Alþingi fékk frá Bankasýslunni um að ráðherra yrði „upplýstur að fullu leyti um hverja sölu“ ef ráðherra ætlaði sér alltaf að samþykkja söluna með lokuð augun. „Ef til vill til að koma í veg fyrir að hann yrði vanhæfur vegna kaupa pabba síns, frænda og vina í bankanum?“
Samkvæmt 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekur ráðherra ákvörðun um hvort tilboði...
Posted by Jóhann Páll Jóhannsson on Wednesday, April 20, 2022
Bjarni velur það sem hentar
Oddný svarar Bjarna í athugasemd undir færslu hans og fjallar um sama ákvæði og Jóhann Páll. Þar segir hún að það sé rétt hjá Bjarna að hún þekki lögin vel. „Enda voru þau samin í minni tíð í fjármálaráðuneytinu og ég mælti fyrir þeim á sínum tíma. Þú vitnar í ræðu mína og í greinargerð með lögunum en velur þér það sem hentar. Það er skýrt bæði í lögunum og í greinargerðinni að það er ráðherra sem tekur ákvörðun um hvort tilboði skuli tekið eftir rökstutt álit frá Bankasýslunni. Svo er „endanlegur frágangur“ auðvitað allt annað en að taka ákvörðun um samþykki eða höfnun tilboða.“
Segir hún að fram hafi komið í ræðu sinni þegar hún mælti fyrir frumvarpinu að í fjórðu grein laganna væri kveðið á um að Bankasýsla ríkisins annaðist sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra. Jafnframt væri kveðið á um að ráðherra tæki ákvörðun um hvort tilboði skyldi tekið eftir að hafa fengið rökstutt mat frá Bankasýslunni á þeim tilboðum sem berast í tiltekna eignarhluti.
Í frumvarpinu væri lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð yrði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Við mat á tilboðum í meira en 10 prósent eignarhlut í fjármálafyrirtæki bæri að líta til skilyrða um mat á hæfi tilboðsgjafa til þess að fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki.
Oddný vitnar að lokum í greinargerðina með frumvarpinu: „Í 2. mgr. 4. gr. er lagt til að Bankasýsla ríkisins skili ráðherra rökstuddu mati á tilboðum í eignarhlutann þegar þau liggja fyrir. Í kjölfarið mun ráðherra taka ákvörðun um samþykki eða höfnun tilboða fyrir hönd ríkisins. Í 2. mgr. er jafnframt kveðið á um að ráðherra skuli undirrita samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhluta. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta.“