Þann 11. nóvember síðastliðinn fór fram atkvæðagreiðsla á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í 4. nefnd allsherjarþingsins, um þingsályktunartillögu sem fól meðal annars í sér að Alþjóðadómstóllinn í Haag yrði fenginn til að veita ráðgefandi álit á lögmæti hernáms Ísraelsríkis á landsvæðum Palestínumanna.
Ísland sat hjá við þessa atkvæðagreiðslu, en það var mat Íslands „eftir ítarlega skoðun og samráð við önnur ríki að beiðni um álit Alþjóðadómstólsins í Haag myndi ekki styrkja tilraunir til að endurvekja pólitískt samtal milli Ísraels og Palestínu, sem er forsenda þess að samið verði um tveggja ríkja lausn,“ samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá utanríkisráðuneytinu.
Í svarinu frá utanríkisráðuneytinu kemur einnig fram að búast megi við að afstaða Íslands verði óbreytt við endanlega afgreiðslu tillögunnar sem fram fer síðar í mánuðinum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Jafn mörg ESB-ríki með og á móti
Tillagan sem um ræðir var samþykkt í 4. nefndinni með 98 atkvæðum gegn 17 mótatkvæðum, en 52 ríki sátu hjá. „Flest líkt þenkjandi ríki í Evrópu, þar á meðal Norðurlöndin, sátu hjá eða kusu gegn ályktuninni,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.
Þau ríki innan Evrópusambandsins sem greiddu atkvæði með ályktuninni í fjórðu nefndinni voru Írland, Portúgal, Belgía, Lúxemborg, Malta, Pólland og Slóvenía. Á móti voru Þýskaland, Tékkland, Ítalía, Eistland, Litáen, Austurríki og Ungverjaland, en önnur ríki Evrópu sátu hjá rétt eins og Ísland. Bandaríkin greiddu atkvæði á móti ályktuninni.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að afstaða Íslands hafi ráðist af því að það hefði verið ákjósanlegra að bera upp beiðni um álit Alþjóðadómstólsins „í sjálfstæðri ályktun og efna til umræðu um það eingöngu á forsendum þess álitaefnis“ og bendir ráðuneytið á að nokkrar álitsbeiðnir til Alþjóðadómstólsins hafi verið settar fram frá aldamótum og þær allar verið settar fram í sérstökum ályktunum en ekki skeytt inn í aðrar ályktanir, eins og nú sé tilfellið.
Orðalag ályktunarinnar feli í sér „óþarfa ögrun“
„Þá grefur það undan stuðningi við ályktunina að vísað [er] til helgistaðarins al-Haram al-Sharif án þess að vísa líka til Musterishæðarinnar,“ segir einnig í svari utanríkisráðuneytisins.
Musterishæð, eða Temple Mount upp á enska tungu, er það heiti sem gyðingar og kristnir nota um hæðina helgu í Jerúsalem, þar sem hvoru tveggja má finna al-Aqsa moskuna og Grátmúrinn.
„Fjölmörg ríki breyttu afstöðu sinni til ályktunar um Jerúsalem á síðasta allsherjarþingi vegna samskonar orðalags. Það er miður að ekki reyndist vilji til að breyta orðalaginu nú í samræmi við þessi sjónarmið heldur láta það fela í sér óþarfa ögrun og auka með því enn á sundrungu,“ segir í svari ráðuneytisins.
Afstaða Íslands í þessari atkvæðagreiðslu felur samkvæmt ráðuneytinu ekki í sér neina stefnubreytingu hvað stefnu Íslands í málefnum Palestínu varðar, en Ísland er eitt fárra ríkja Vesturlanda sem viðurkennir sjálfstæði Palestínuríkis og hefur gert það frá árinu 2011.
Fjöldapóstur frá Ísrael á þjóðarleiðtoga
Ísraelsmenn hafa barist gegn tillögunni og framgangi hennar á allsherjarþinginu.
Undir lok nóvembermánaðar sendi Yair Lapid forsætisráðherra landsins bréf á tugi þjóðarleiðtoga þar sem hann óskaði eftir því að ríki beittu áhrifum sínum gagnvart palestínsku heimastjórninni í því skyni að koma í veg fyrir að tillagan sem samþykkt var í 4. nefndinni fengi lokaafgreiðslu á allsherjarþinginu.
Í bréfinu kom Lapid því á framfæri að ef tilraun Ísraelsmanna til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna bæri ekki árangur vonaðist Ísrael eftir því að vinveittar þjóðir greiddu atkvæði gegn tillögunni.