Björn Leví Gunnarsson er einn þeirra þingmanna sem hefur tjáð sig opinberlega um atburðarás síðastliðinna vikna er varðar sölu ríkisins á 22,5 prósenta hluta í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Hann segir meðal annars að það sé „ótrúlegt hvað þessir stjórnarliðar“ leiti langt til þess að snúa öllu á hvolf.
Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans hafa hafið rannsókn á útboði Bankasýslunnar en mörgum innan stjórnarandstöðunnar þykir það ekki nægilegt og vilja að sérstök rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð til að rannsaka málið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt að hún vilji fyrst frá niðurstöðu þessara tveggja stjórnsýslueininga áður en áfram er haldið. Ekki margir VG liðar hafa tjáð sig um málið undanfarið en Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður VG sagði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag að þau í VG hefðu frá upphafi verið skýr með það að fara yrði nákvæmlega yfir það hvernig staðið var að framkvæmdinni á sölu Íslandsbanka. „Fjármálaeftirlit Seðlabankans og Ríkisendurskoðun, sem er algerlega sjálfstæð í vinnu sinni, hafa þegar hafið athugun á málinu. Mér finnst mikilvægt að Alþingi sýni Ríkisendurskoðun fullt traust til að ljúka rannsókn sinni,“ skrifar hún á Facebook.
Rannsókn á sölunni á Íslandsbanka í réttum farvegi
Telur Steinunn Þóra að þeirri rannsókn lokinni verði hægt að leggja mat á það hvort stofna beri sérstaka rannsóknarnefnd um málið til að upplýsa það enn frekar.
Hún segir að það að byrja rannsóknina hjá Ríkisendurskoðun sé eðlilegur upphafspunktur rannsóknar. Í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis sé fjallað um hvenær rétt sé að skipa rannsóknarnefnd. Þar segi meðal annars að við undirbúning slíkrar tillögu og áður en hún er lögð fram skuli sérstaklega leggja mat á tilefni og grundvöll rannsóknar, hvert sé mögulegt umfang hennar og afmörkun og hvort önnur úrræði séu tiltæk.
Þá segi enn fremur að áður en tillaga um skipun rannsóknarnefndar er lögð fram skuli leita umsagnar forseta Alþingis um þau atriði sem tilgreind eru í lögum. Við undirbúning hennar sé forseta Alþingis heimilt að leita umsagnar ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis um tillöguna.
Vísar Steinunn Þóra jafnframt í greinargerð með frumvarpinu en þar segir að rétt sé að árétta að skipun rannsóknarnefndar sé úrræði sem beri einungis að nota ef einsýnt er að ekki er unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði. Úrræðið sé sérúrræði og mikilvægt að á það sé litið sem slíkt og að til þess sé ekki gripið nema nauðsynlegt sé.
„Á þessu má sjá að rannsókn á sölunni á Íslandsbanka er í réttum farvegi,“ skrifar þingmaður VG.
Við í VG höfum frá upphafi verið skýr með það fara verður nákvæmlega yfir það hvernig staðið var að framkvæmdinni á sölu...
Posted by Steinunn Þóra Árnadóttir on Wednesday, April 20, 2022
Af hverju að bíða?
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata bregst við þessum orðum Steinunnar Þóru í dag og spyr á Facebook af hverju bíða eigi eftir Ríkisendurskoðun þegar heimilt sé að leita umsagnar um skipan rannsóknarnefndar.
„Þegar ríkisendurskoðun klárar núverandi rannsókn – ef þingið telur tilefni til þess að koma á fót rannsóknarnefnd þá þarf mögulega aftur að leita til ríkisendurskoðunar um álit á tillögu um rannsóknarnefnd. Af hverju ekki að stofna rannsóknarnefnd fyrst – og biðja um umsögn ríkisendurskoðunar við því?“ spyr hann.
Björn Leví segir að ef ríkisendurskoðun myndi telja óþarft að stofna rannsóknarnefnd þá kæmi það fram í umsögninni. „Það er ótrúlegt hvað þessir stjórnarliðar leita langt til þess að snúa öllu á hvolf.“
Af hverju að bíða eftir Ríkisendurskoðun þegar það er _heimilt_ að leita umsagnar um skipan rannsóknarnefndar? Þegar...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, April 20, 2022
„Gilda hin svokölluðu armslengdarsjónarmið um hæfi ekki við þær aðstæður?“
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar fjallaði um málið á Facebook-síðu sinni í gær og benti á að forsætisráðherra hefði talað um það að bíða þyrfti niðurstöðu rannsóknar áður en dómar væru felldir um hvernig til tókst með útboðið á tæpum fjórðungshluta í Íslandsbanka. Engu að síður hefði Katrín sjálf ekki beðið niðurstöðu neinnar rannsóknar áður en hún kynnti frumvarp um að leggja Bankasýsluna niður.
„Ljóst er af orðum hennar að stofnunin verður einmitt og akkúrat lögð niður í beinum tengslum við hvernig til tókst. Hún beið hvorki niðurstöðu Ríkisendurskoðunar né Fjármálaeftirlitsins áður en fréttatilkynning var send út um endalok Bankasýslunnar.
Forsætisráðherra hefur hins vegar ekkert nefnt í hvaða stöðu ráðherra er þegar eftirlitsstofnun sem heyrir undir hann rannsakar mál sem hann ber ábyrgð á. Undir fjármálaráðuneytið fellur opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi samkvæmt vefsíðu fjármálaráðuneytis. Fjármálaráðherra er samkvæmt því æðsti yfirmaður Fjármálaeftirlits sem nú rannsakar þætti sem hann ber ábyrgð á. Undirstofnun hans er um leið í þeirri stöðu að rannsaka þætti sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á. Gilda hin svokölluðu armslengdarsjónarmið um hæfi ekki við þær aðstæður?“ spyr hún.
Forsætisráðherra hefur talað um það í dag að bíða þurfi niðurstöðu rannsóknar áður en dómar eru felldir um hvernig til...
Posted by Thorbjorg Sigridur Gunnlaugsdottir on Tuesday, April 19, 2022