Er sprengingar urðu í Nord Stream-gasleiðslunni skammt undan dönsku eyjunni Borgundarhólmi á dögunum fóru vísindamenn þegar í stað að velta fyrir sér umhverfisáhrifum atviksins. Atviks sem margir vilja meina að hafi verið skemmdarverk. Gríðarlegt magn af metangasi fór út í andrúmsloftið í kjölfar þess að um hálfur kílómetri af gasleiðslunum miklu hreinlega splundraðist. Þetta er eitt og sér að sjálfsögðu áfall fyrir heimsbyggðina sem vinnur nú að því sameiginlega markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
En sumir vísindamenn höfðu aðrar og alvarlegri áhyggjur. Að sprengingarnar, sem urðu 26. september gætu raskað og rótað í haugum af leifum efnavopna sem var hrúgað á einmitt þessar slóðir í Eystrasaltinu árið 1947. Það var gert er afvopnun Þýskalands, eftir ósigur Hitlers og nasismans, var framkvæmd.
Í frétt á vef vísindatímaritsins Nature segir að um 32 þúsund tonnum af efnavopnum, sem innihéldu um 11 þúsund tonn af virkum efnum, hafi verið komið fyrir á hafsbotni ekki langt frá Borgundarhólmi. Nature hefur eftir Hans Sanderson, umhverfisfræðingi við Háskólann í Árósum, að með tímanum hafi járnhylkin sem eiturefnin voru geymd í að öllum líkindum tærst og efnin lekið smám saman út í botnlögin.
Sanderson hefur áhyggjur af því að hinar kröftugu sprengingar sem urðu í gasleiðslunni gætu hafa orðið til þess að efnin losnuðu úr botnlögunum og út í sjóinn. Hafi það gerst gætu þau skaðað lífríkið.
Hann segir að meðal efna sem legið hafi á botni Eystrasaltsins sé hið geislavirka sesín (caesium-137), fjölbrómaður dífenýleter, sem er eitrað logavarnarefni, auk þungmálma á borð við kvikasilfur, blý og kadmíum.
„Eystrasaltið er í raun eitt mengaðasta haf jarðar,“ segir Sanderson. „Botnlögin þar eru full af drasli.“
Eins nálægt haugunum og hugsast gat
Áður en Nord Stream-gasleiðslurnar voru lagðar um Eystrasaltið milli Rússlands og Þýskalands var Sanderson meðal þeirra sem tók þátt í að gera umhverfismat framkvæmdarinnar. Hann segir sprengingarnar í september hafa orðið „eins nálægt efnavopnaruslahaugnum og mögulegt var“.
Er Sanderson sá myndir af vettvangi, sá metangasbólurnar risavöxnu yfir götunum sem höfðu myndast í kjölfar sprenginganna, segist hann hafa gert sér grein fyrir að rót hefði komist á botnlögin. Að sandurinn sem eiturefnin hafi lekið út í um áratugaskeið hefði þyrlast upp.
Teymi hans er nú að safna gögnum úr vöktun á svæðinu og búa til líkan um hvað gæti mögulega hafa gerst. Einnig er verið að safna sýnum úr sjónum. Í kjölfarið munu vísindamennirnir svo tvinna þau gögn saman við upplýsingar um lífríkið á þessum slóðum. Þannig á að reyna að meta hvaða áhrif losun eiturefnanna úr botnlögunum gæti haft á ólíkar tegundir.
Þegar rót kemst á botnset sest það ekki strax. Ekki nærri því strax, segir Sanderson við Nature. Í Eystrasaltinu eru hafstraumarnir ekki sérstaklega sterkir. Þetta er kyrrt haf í þeim skilningi. Þetta hefur m.a. þau áhrif að sjórinn er mjög lagskiptur. Hlýrri sjór og kaldur blandast ekki stöðugt líkt og ef straumarnir væru sterkir.
Fleiri viðmælendur Nature sem hafa rannsakað ýmsa þætti Eystrasaltsins, m.a. togveiðar um það síðustu áratugi, taka undir áhyggjur Sandersons. Einn þeirra bendir á að sprengingarnar hafi orðið á hrygningarsvæði þorsks en tímasetningin gæti hjálpað til því þorskurinn hrygnir að vori. Engu að síður mun sprengingin ein og sér, alveg óháð því hvort að eitrið úr efnavopnunum hafi losnað úr álögum botnsetsins. Sem dæmi þá blómgast ákveðnir þörungar að hausti, lífverur sem eru mikilvægar fyrir heilbrigði vistkerfisins. Hafi þær orðið fyrir áhrifum gæti það haft hliðarverkun upp allan fæðupíramídann.
Vísindamenn frá Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð munu taka höndum saman við þessa rannsókn. Öll ríkin stunda rannsóknir að ákveðnu marki í Eystrasalti.
Sanderson vonast til þess að niðurstöður berist sem fyrst. Hann bíður þeirra í ofvæni. „Ég er áhyggjufullur vegna þeirrar staðreyndar að þetta er mjög mengað botnset,“ segir hann við Nature. Hafi efnin úr vopnunum losnað úr læðingi við sprengingarnar gæti það valdið skaða. Ekki er hægt að slá því föstu fyrr en niðurstöðurnar liggja fyrir.