Serbar kalla Jadar-dalinn í vesturhluta landsins „brauðkörfuna“. Það er skiljanlegt því um fimmtungur allrar landbúnaðarvara sem framleiddar eru í landinu kemur þaðan. Dalurinn lúrir milli Cer og Gučevo-fjallanna. En undir hinum grösuga og frjósama jarðvegi finnst að því er talið er eitt mesta magn hins fágæta, mjúka og silfurhvíta málms liþíum. Hann er óstöðugur og eldfimur og er því ekki að finna stakan í jarðskorpunni heldur er hann bundinn í ýmsum steindum í bergi. Hann er sannarlega fágætur, aðeins um 0,002 prósent af allri skorpunni sem umvefur plánetuna Jörð.
Lengi vel var talið að liþíum væri að finna í hvað mestu magni í Chile og Bólivíu þrátt fyrir að gröftur eftir honum sé mestur í Ástralíu. Nýlegar jarðfræðirannsóknir í Tékklandi hafa svo sýnt að þar er hann að finna í vinnanlegu magni, eins og sagt er þegar það þykir borga sig að grafa eftir honum, vinna svo úr berginu og því næst selja. Sautján ár eru svo síðan að jarðfræðingur kom niður á liþíum í borholu í Jadar-dalnum. Hann var ekki að leita að því efni heldur öðrum fágætum jarðefnum. Það var því eiginlega tilviljun að náttúruauðlindin uppgötvaðist á þessum slóðum.
Lykilefnið eftirsótta
Kaupendurnir eru margir. Og þeim fer hratt fjölgandi. Liþíum er lykilefni í rafhlöðum til að knýja hina nýju kynslóð bíla, rafmagnsbíla, sem stjórnvöld víða um heim binda vonir við að verði stórt púsl í þeirri viðleitni að bjarga jarðarbúum út úr loftslagsvandanum sem þeir hafa komið sér í.
Liþíum er líka nauðsynlegt til framleiðslu sólarrafhlaða og vindmylla. Það er því eitt hinna fágætu jarðefna sem eru að verða enn eftirsóttari en áður. En til að nálgast þau, hvar svo sem þau er að finna í veröldinni, þarf að grafa eftir þeim. Og þeim námugreftri fylgja oft mikil náttúruspjöll sem og mengunarhætta, m.a. vegna geislavirkni sumra efnanna.
„Græn tækni, rafbílar, hreint loft – allt þetta þarf á einum mesta liþíum-forða veraldarinnar, sem finnst einmitt hér í Jadar í Serbíu, að halda.“
Á þessum orðum hefst sjónvarpsauglýsing sem sýnd hefur verið í serbneska ríkissjónvarpinu undanfarið. Hún hefur það að markmiði að róa almenning og þær þúsundir sem mótmælt hafa fyrirhuguðum námugreftri í Jadar-dalnum. „Við skiljum áhyggjur ykkar vegna umhverfisins fullkomlega,“ heldur þulur auglýsingarinnar áfram. Námufyrirtækið sé að gera nákvæma greiningu „til að fullvissa okkur öll um að við þróum Jadar-verkefnið í samræmi við hæstu umhverfis-, öryggis- og heilbrigðiskröfur.“ Næst sjást yfirvegaðir vísindamenn á skjánum og loks ungt par sem gengur inn í sólarlagið. „Rio Tinto: Saman höfum við tækifæri til að bjarga plánetunni“.
Rio Tinto. Hið ástralska-enska námufyrirtæki, það annað stærsta í heiminum, hefur ástæðu til að óttast að vera ekki talið trúverðugt þegar kemur að því að grafa eftir liþíum í Jadar-dalnum með það að markmiði að verða meðal stærstu framleiðenda málmsins á heimsvísu. Það hefur líka ástæðu til að ásælast þessa auðlind. Allt liþíum sem notað er til framleiðslu „grænna lausna“ í Evrópu, m.a. rafbíla, er unnið úr jörðu utan álfunnar. En Evrópa vill verða sjálfbær og því sá Rio Tinto sér leik á borði.
Hin 150 ára saga fyrirtækisins er stráð ásökunum og málsóknum vegna spillingar, mannréttindabrota og umhverfissóðaskapar, líkt og rakið er í ítarlegri fréttaskýringu The Guardian og Kjarninn hefur einnig áður fjallað um. Nýjasta málið höfðaði bandaríska viðskiptaráðið sem sakar fyrirtækið um að hafa beitt blekkingum í tengslum við kolavinnslu sína í einu fátækasta ríki heims: Mósambík. Forstjórinn sagði upp í fyrra eftir að upp komst að fyrirtækið hefði vísvitandi sprengt upp helga hella í Ástralíu – hella sem fyrstu mennirnir bjuggu í fyrir um 46 þúsund árum. Simon Trott, sem tók við forstjórastarfinu, sagði fyrr á þessu ári að fyrirtækið væri „ekki stolt af sögu sinni“ í tengslum við Marandoo-námuna í Vestur-Ástralíu. Orðin lét hann falla vegna uppljóstrana um að hundruðum forngripa hefði verið hent á haugana við námuvinnsluna.
Um svipað leyti féllst stjórn fyrirtækisins loks á að láta gera mat á áhrifum starfsemi fyrirtækisins á umhverfi og mannréttindi í Papúa Nýju-Gíneu. Rio Tinto rak kopar- og gullnámu á einni eyjanna í áratugi og er sakað um að hafa dælt milljónum tonna af úrgangi frá vinnslunni í ár og menga vatnsból með margvíslegum afleiðingum á lífríkið. Íbúar eru enn að bíta úr nálinni með það. Um þetta tiltekna mál hefur Vera Illugadóttir m.a. fjallað í þætti af Í ljósi sögunnar.
Dæmin eru miklu fleiri. Eitt það nýjasta er hörð gagnrýni á starfsemi fyrirtækisins í Mongólíu við rekstur enn einnar gull- og koparnámunnar. Sú er úti í Gobi-eyðimörkinni og er vinnslan í samstarfi við stjórnvöld í landinu. Þau hafa hins vegar viðrað alvarlegar áhyggjur sínar af starfseminni. Telja Rio Tinto, eða öllu heldur dótturfyrirtæki þess, ekki vera að segja satt og rétt frá um tafir og annað sem upp á hefur komið og orðið til þess að náman er ekki enn orðin sjálfbær á sjötta starfsári.
Liþíum í milljón rafbíla á ári
Nú hefur Rio Tinto sett stefnuna á Serbíu. Í júlí tilkynnti fyrirtækið að það ætlaði að fjárfesta fyrir milljarða í áformaðri vinnslu á liþíum í Jadar-dalnum. Þetta verður stærsta liþíum-náma Evrópu, sagði fyrirtækið. Áformað væri að að starfrækja námuna í og við Korenita-ána í fjörutíu ár. Hægt væri að framleiða 2,3 milljónir tonna af liþíum á ári sem og tugþúsundir tonna af bór-sýru sem einnig er nýtt til að framleiða hina grænu tækni. Efnið myndi duga til að framleiða eina milljón rafbíla árlega. Náman yrði einstök á heimsvísu enda ekki vitað um annan stað þar sem bæði liþíum og bór er að finna í sömu steindinni. Rio Tinto hefur bent á „liþíum holuna“ – hversu gríðarleg eftirspurnin sé og verði á næstu árum á sama tíma og að framleiðslan sé langa vegu frá því að svala henni.
Fólk sem mótmælt hefur áformunum á götum serbneskra borga síðustu mánuði hefur hins vegar bent á að græna byltingin gæti orðið á kostnað náttúrunnar og umhverfisins, einmitt þess sem henni er ætlað að vernda.
Það var einmitt jarðfræðingur á vegum Rio Tinto sem fann liþíum í Jadar-dalnum fyrir tæpum tveimur áratugum. Koma hans og annarra jarðfræðinga er Marijönu Petkovitsj, sem býr í nágrenni hinnar fyrirhuguðu námu, í fersku minni. Hún kynntist vísindamönnunum vel. Bauð þeim í kaffi, segir hún m.a. í viðtali við Guardian. „Þá var verið að tala um litla námu, kannski um 20 hektara, og að við myndum varla vita af henni.“
Gjafir til samfélagsins
Á næstu árum hóf Rio Tinto að færa samfélögunum í Jadar-dalnum ýmsar gjafir. Einn grunnskólanna fékk t.d. eina slíka í formi endurbóta. Fótboltalið í einu þorpinu fékk nýtt þak á íþróttahúsið að gjöf og svo mætti áfram telja.
Námuáformin stækkuðu samhliða auknum gjöfum. Er fram liðu stundir voru þau komin upp í 80 hektara. Í haust barst svo íbúum bréf um að landbúnaðarland í dalnum yrði skilgreint sem iðnaðarsvæði. Starfsmaður á vegum Rio Tinto heimsótti konur í þorpunum og spurði hvers þær væntu af námustarfseminni. Petkovitsj segist hafa verið einföld. Að hún hafi ekki áttað sig á því hvað væri í gangi.
Serbnesk stjórnvöld tilkynntu í mars að áhrifasvæði námunnar yrði um 850 hektarar. Það jafnast á við um 1.000 fótboltavelli. Jarðefnin yrðu unnin úr bergi undir farvegi Korenita-árinnar en þar er liþíum að finna á 100-650 metra dýpi.
Íbúar Jadar-dalsins þekkja árnar sínar og vita að þær eiga það til að flæða yfir bakka sína. Það gerðist til dæmis árið 2014 með þeim afleiðingum að flóðavatn komst inn í aflagða koparnámu og eitruð og mengandi efni flæddu yfir tún og akra. Rio Tinto hefur svarað því til að ætlunin sé að ganga svo um hnúta að búnar verði til þurrar „kökur“ úr fljótandi úrgangi frá starfseminni til að koma í veg fyrir slík mengunarslys. Á þeim fjórum áratugum sem áformað er að starfrækja námuna myndu falla til tæplega 60 milljón tonn af úrgangi, aðallega bergmulningi. Framleiðslan er vatnsfrek og þyrfti um 6-18 lítra af vatni á sekúndu.
Svo stórt svæði þarf Rio Tinto til námuvinnslunnar að fyrirtækið hefur keypt jarðir af tæplega 300 landeigendum, að hluta eða í heild. Þá þurfa áttatíu heimili að víkja. Sumir fara af fúsum og frjálsum vilja. Aðrir ekki.
Mörg hús í þorpi Petkovitsj eru nú komin í eigu Rio Tinto. Hún lýsir því fyrir blaðamanni Guardian að fólk hafi tekið allt eigulegt úr þeim, jafnvel glugga, hurðir og þök, áður en það yfirgaf þau. Eftir standa tómar augntóftir áður líflegra íbúðarhúsa.
Bjarsýnir á leyfi
Andstæðingar námunnar hafa m.a. áhyggjur af því að drykkjarvatn hundruð þúsunda manna spillist. Dragana Đorđević, prófessor í umhverfisefnafræði og verkfræði við háskólann í Belgrad, bendir t.d. á að það sé rík ástæða fyrir því að námur sem þessar hafi hingað til verið reknar á afskekktum stöðum. Hann telur hættu á vatnsmengun mikla.
Rio Tinto hefur ekki enn fengið öll tilskilin leyfi til að hefja framkvæmdir við námuna. Fyrirtækið hefur að sögn gert margar rannsóknir, m.a. á lífríki, vegna áformanna en hefur ekki viljað birta niðurstöður þeirra opinberlega. Til stendur að skila skýrslu um mat á umhverfisáhrifum til serbneska umhverfisráðuneytisins fyrir áramót.
Talsmenn Rio Tinto eru bjartsýnir á jákvæð viðbrögð stjórnvalda.