Mikið starf hefur verið unnið til þess að reyna að koma flutningaskipinu Ever Given aftur á flot en það hefur setið fast frá því á þriðjudagsmorgun eftir að það strandaði í Súes-skurðinum á leið sinni til Rotterdam í Hollandi.
Vonir voru bundnar við það að skipinu yrði náð aftur á flot á háflóði í dag. Alls tóku fjórtán dráttarbátar þátt í aðgerðunum í dag en stefnt er að því að enn fleiri dráttarbátar reyni að draga skipið laust úr bökkum skurðarins og koma því á flot á morgun.
Þá hafa gröfur einnig reynt að grafa sand undan stafni skipsins. Samkvæmt frétt BBC höfðu um 20 þúsund tonn sands verið grafin úr bökkum skurðarins. Vatni hefur auk þess verið dælt úr kjölfestutönkum skipsins sem hefur skilað sér í því að það er nú níu þúsund tonnum léttara en við strand. Samkvæmt frétt Reuters hefur stefni og skutur skipsins hreyfst í dag en óhagstæðir vindar og straumar hafa komið í veg fyrir að skipið komist á flot.
Vonast er eftir því skipið losni með frekari sandgreftri og fleiri dráttarbátum. Ef það virkar ekki þarf að létta skipið enn frekar með því að losa af því gáma. Til þess þyrfti sérstakan búnað, til að mynda stóra krana, en slík aðgerð gæti tekið vikur að því er fram kemur í frétt BBC.
Kostnaðarsamt strand
Nú bíða á fjórða hundrað skipa eftir því að komast leiðar sinnar um Súes-skurðinn en hann styttir flutningstíma á milli Asíu og Evrópu umtalsvert. Leiðin um skurðinn er rum 6.500 kílómetrum styttri. Í frétt BBC kemur fram að siglingin um Góðravonarhöfða, sem var hin hefðbundna leið fyrir opnun skurðarins, geti tekið allt að tveimur vikum lengri tíma en sigling um Súes-skurðinn.
Í fréttinni er einnig sagt að á hverjum degi standi lokun skurðarins í vegi fyrir flutning vara að verðmæti 9,6 milljarða Bandaríkjadala sem eru rúmlega 1.200 milljarðar króna. Tekjuskerðing egypska ríkisins er einnig töluverð vegna lokunar skurðarins en ríkið er talið verða af um 14 milljónum Bandaríkjadala á degi hverjum vegna lokunarinnar, tæpum 1,8 milljörðum króna.