Ríkisstjórninni tókst að koma nánast öllum á óvart þegar hún tilkynnti síðdegis í gær að til stæði að eyða stöðu Íslands sem umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Málið var ákveðið á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag, kynnt þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna í gær og þjóðinni allri, ásamt stjórnarandstöðu, í sexfréttum RÚV.
Út frá almannatengslafræðum var málið ágætlega afgreitt af hendi ríkisstjórnarinnar. Allar tímasetningar virtust vel hannaðar til að valda ríkisstjórninni sem minnstum skaða á þessum fyrstu metrum þess óumflýjanlega slags sem framundan er.
Málið komst í hámæli fjölmiðla skömmu fyrir kvöldfréttir þannig að stóru sjónvarpsfréttatímunum gafst lítill tími til að gera annað en að óma ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Leiðtogum stjórnarandstöðunnar gafst líka lítill tími til að melta það áður en þeir þurftu að tjá sig um málið. Það var til að mynda mjög sýnilegt í Kastljósþætti gærkvöldsins að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi mun betur hvað hann ætlaði að segja (hann talaði aðallega um síðustu ríkisstjórn og þjóðaratkvæðagreiðslur í kringum Icesave) en Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem var búinn að vita af umsóknarendingunni í rúman klukkutíma.
En hentuglegast af öllu var að forsætisráðherra þjóðarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var staddur í Kaupmannahöfn í fríi þegar stormurinn skall á. Hann átti nefnilega stórafmæli, varð fertugur, og því eðlilega ekki til viðtals á meðan.
Fyrir liggur að forsætisráðherrann fékk hins vegar nákvæmlega það sem hann vildi í afmælisgjöf.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.