Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur skipað Ernu Kristínu Blöndal, skrifstofustjóra, í embætti ráðuneytisstjóra frá og með deginum í dag. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en í henni er nýtt skipulag mennta- og barnamálaráðuneytis kynnt.
Erna Kristín tekur við af Páli Magnússyni, sem fer til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf og mun þar starfa á sviði málefna barna, meðal annars við að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra stjórnvalda hvað varðar velferð og réttindi barna en einnig á sviði alþjóðavinnumála og alþjóðaheilbrigðismála, samkvæmt tilkynningunni.
„Erna er með BA- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands, býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og hefur haldið utan um stór verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda. Hún hefur gegnt embætti skrifstofustjóra síðan 2019, fyrst á skrifstofu barna- og fjölskyldumála hjá félagsmálaráðuneytinu (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) og nú síðast skrifstofu barnamála í mennta- og barnamálaráðuneyti.
Áður var Erna verkefnastjóri hjá félagsmálaráðuneytinu 2018-2019 þar sem hún leiddi vinnu um endurskoðun á málefnum barna, framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga 2016-2018 og lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneytinu (nú dómsmálaráðuneytinu) frá 2009-2016, m.a. sem sérfræðingur þverpólitískrar þingmannanefndar um endurskoðun útlendingalaga. Auk þessa hefur hún sinnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum og m.a. setið í stjórn og verið stjórnarformaður UNICEF á Íslandi,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
Kærði ráðningu Páls
Mikið var rætt um ráðningu Páls á sínum tíma en Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, ákvað að skipa Pál sem ráðuneytisstjóra í byrjun nóvember 2019.
Páll hafði gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn um árabil en í tilkynningu Lilju um ráðninguna kom fram að það hefði verið mat ráðherra að hann væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu næstu fimm árin og leiða það umbótastarf sem væri í farvatninu.
Hafdís Helga Ólafsdóttir var á meðal þeirra sem sóttu um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu þegar það var auglýst árið 2019. Hafdís Helga kærði ráðningu Páls til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún taldi ljóst að reynsluminni og minna menntaður karlmaður hefði verið ráðin í starfið sem hún sóttist eftir. Gögnin hefðu sýnt að ráðningarferlið hefði ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna og Hafdís Helga taldi sig ekki hafa fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins.
Ráðherrann braut jafnréttislög
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls. Lilja ákvað að íslenska ríkið myndi stefna Hafdísi Helgu persónulega til að fá úrskurð kærunefndarinnar ógildan.
Í mars í fyrra hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur öllum málsástæðum Lilju og sagði í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið fyrir hendi neinir „annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar“.
Lilja ákvað að áfrýja dómnum rúmum fjórum klukkustundum eftir að hann hafði fallið. Þar með lá fyrir að málið yrði í áfrýjunarferli að minnsta kosti fram yfir þingkosningar, sem fram fóru 25. september síðastliðinn.
Eftir kosningarnar endurnýjuðu fyrri stjórnarflokkar samstarf sitt en málarekstur Lilju gegn Hafdísi Helgu varð eftir í nýju barna- og menningarmálaráðuneyti sem Ásmundur Einar Daðason, flokksbróðir Lilju, settist í. Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um afstöðu hans til málarekstursins í byrjun desember í fyrra en fékk engin svör.
Íslenska ríkið féll frá málarekstrinum
Í byrjun febrúar kom málið nokkuð óvænt inn á dagskrá Landsréttar. Málflutningur skyldi fara fram 28. febrúar 2022.
Í aðdraganda þessa höfðu átt sér stað umtalsverð samskipti milli málsaðila þar sem lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, kallaði eftir upplýsingum um hvað ráðuneyti Ásmundar Einars ætlaði að gera. Þegar málið var komið á dagskrá Landsréttar varð meira knýjandi að fá svar frá ráðuneytinu og settum ríkislögmanni. Tíminn leið.
Svörum var lofað í byrjun febrúar, en þau bárust ekki. Svo áttu þau að berast viku síðar, en gerðu það ekki. Loks lá fyrir að Ásmundur Einar myndi láta afturkalla málareksturinn en það var ekki gert formlega fyrr en 24. febrúar með samkomulagi, samkvæmt heimildum Kjarnans. Og ekki gert opinbert fyrr en 25. febrúar þegar málið var tekið út af dagskrá Landsréttar, síðasta virka dag áður en að málflutningur átti að fara fram í Landsrétti.
Samið um miskabætur
Hafdís Helga gat ekki sótt skaðabætur vegna þess að ekki lá fyrir að hún hefði fengið starf ráðuneytisstjóra ef Páll, sem hefur gegnt mýmörgum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og bauð sig eitt sinn fram til formennsku í honum, hefði ekki verið ráðinn. Af þeim þrettán sem sóttu um embættið mat hæfisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til að gegna því og Lilja tók þá fjóra í viðtal. Á meðal þeirra var Páll en ekki Hafdís Helga. Ógjörningur var því að sýna fram á að Hafdís Helga hefði verið tekin fram fyrir þá tvo sem út af stóðu í mjög hæfa hópnum til að sækja skaðabætur vegna tekjutaps, sem hefði verið mismunurinn á launum ráðuneytisstjóra og núverandi starfi hennar út starfsferilinn, út frá fyrirliggjandi gögnum. Þess vegna var samið um miskabætur.
Kostnaður ríkisins við rekstur málsins fyrir héraðsdómi nam alls 8,7 milljónum króna. Áætlað var að kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar yrði á bilinu 900 þúsund krónur til 1,2 milljónir króna án virðisaukaskatts. Til viðbótar bættist sá kostnaður sem féll til vegna greiðslu miskabóta.