Fasteignaverð í Noregi lækkaði á milli mánaða, samkvæmt nýútgefnum tölum frá landssamtökum fasteignasala þar í landi, Eiendom Norge. Að mati aðalhagfræðings Nordea-bankans er „partýið búið“ á íbúðamarkaði í Noregi og segir hann að búast megi við mun „skynsamlegri“ húsnæðismarkaði samhliða væntum stýrivaxtahækkunum.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um hefur verðþróunin á íbúðamarkaði hérlendis verið í takti við það sem er að gerast í nágrannalöndunum. Í Noregi var húsnæðisverð búið að hækka um 10 prósent umfram verðbólgu á milli vormánaða árin 2020 og 2021, en til samanburðar nam hækkunin hérlendis um átta prósentum á sama tíma.
Á síðustu tveimur mánuðum hefur íbúðaverðsvísitalan í Noregi hins vegar staðið í stað, ef tekið er tillit til árstíðabreytinga. Í höfuðborg landsins, Ósló, lækkaði íbúðaverðið um 0,1 prósent ef árstíðasveiflur eru teknar með í reikninginn.
Kjetil Olsen, aðalhagfræðingur Nordea-bankans segir í viðtali við norska blaðið Dagens Næringsliv (DN) að verðhækkanirnar hafi orðið mun hóflegri á síðustu sex mánuðum en þær voru.
Hóflegar verðhækkanir með vaxtahækkunum
„Þróunin er í takti við það sem við höfum sagt ansi lengi,“ sagði Olsen við DN. „Partýið er búið á fasteignamarkaðnum. Kröftugi vöxturinn sem er að baki var aðallega vegna vaxtalækkana seðlabanka Noregs. Nú eru vextirnir á leið upp, sem mun leiða til „skynsamlegri“ markaðs.“
Seðlabanki Noregs ákvað að hækka stýrivextina sína úr 0 prósentum upp í 0,25 prósent í september. Þetta var fyrsta stýrivaxtahækkun bankans frá upphafi faraldursins, en vextirnir lækkuðu úr 1,5 prósenti niður í núll prósent í tveimur skrefum á tímum fyrstu bylgjunnar í fyrravor.