Persónuvernd sendi á þriðjudag bréf til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í tilefni framlagningar skýrslu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins sem birt var fyrir skemmstu.
Í bréfinu gerir Persónuvernd alvarlegar athugasemdir við svar við spurningu sem finna má í skýrslunni þar sem því var haldið fram að persónuverndarlög hömluðu því að Skatturinn, sem vann skýrsluna, gæti birt upplýsingar um raunverulega eigendur félaga. Var þar meðal annars vísað í úrskurð Persónuverndar frá 15. júní síðastliðnum þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að víðtæk birting heildarhluthafalista margra stærstu fyrirtækja landsins á vef Skattsins væri ekki heimil lögum samkvæmt.
Vegna þessarar túlkunar skýrsluhöfunda var ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geirum.
Í bréfi Persónuverndar segir að í skýrslunni séu ýmsar rangfærslur sem Persónuvernd taldi ástæðu til að leiðrétta. Þar kemur með annars fram að úrskurðurinn frá því í júní hafi einungis náð til upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga, ekki fyrirtækja eða annarra lögaðila sem njóti ekki sömu verndar. Varðandi tilvísun Skattsins um að ekki væri heimilt að birta upplýsingar um raunverulega eigendur segir Persónuvernd að hún sé einfaldlega röng.
Sýndi ekki umsvif útgerða í ótengdum rekstri
Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna þegar hún var loks birt 25. ágúst síðastliðinn, átta mánuðum eftir að beiðni um gerð hennar var samþykkt. Skýrslan sýndi hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaganna í einstökum fyrirtækjum.
Niðurstaða skýrslunnar er að 20 stærstu útgerðir landsins hafi, beint eða í gegnum tengd eignarhaldsfélög og dótturfélög, átt bókfærða eignarhluti í öðrum félögum en útgerðarfélögum upp á 176,7 milljarða króna í árslok 2019. Sú eign var bókfærð á 137,9 milljarða króna árið 2016.
Ekki er tilgreint með neinum hætti um hvaða eignir er að ræða.
„Hvað er verið að fela?“
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, sagði í samtali við Kjarnann að skýrslan væri sannarlega ekki það sem beðið var um. Hún viti ekki hvort hún eigi að hlægja eða gráta þegar hún les skýrsluna. „Ég hallast frekar að því að hlægja. Það er eitthvað fyndið við að þetta skuli verða niðurstaðan. Að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að fara þessa leið til að forðast að umbeðnar upplýsingar kæmust fyrir augu almennings fyrir kosningar.
Hanna Katrín sagði þær tölur sem settar voru fram í skýrslunni ekki sýna krosseignartengsl eða ítök útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. „Þetta varpar fyrst og fremst fram þeirri spurningu: hvað er verið að fela?“
Ráðuneytið hafnar gagnrýni
Atvinnuvegaráðuneytið brást við umræðu um skýrsluna með tilkynningu sem send var út síðastliðinn laugardag.
Í henni sagði meðal annars að í skýrslunni hafi ekki verið gefið yfirlit um raunverulega eigendur félaga þar sem ársreikningaskrá taldi það vera óheimilt. „Þá er rétt að árétta að lög um skráningu raunverulegra eigenda öðluðust gildi um mitt ár 2019 og var aðeins byrjað að safna upplýsingum þá um haustið. Á árunum 2016-2019 var ekki til að dreifa skráningu raunverulegs eigenda í ársreikningum.“
Ráðuneytið hafnaði einnig gagnrýni á að skýrslan byggði á bókfærðu virði eigna og sagði að skýrslubeiðnin hefði ekki náð til krosseignatengsla heldur einungis umsvifa.
Að öllu framangreindu taldi ráðuneytið ljóst að í skýrslunni væru birtar allar þær upplýsingar sem óskað hefði verið eftir og heimilt var að birta.