Persónuvernd telur að víðtæk birting heildarhluthafalista margra stærstu fyrirtækja landsins, sem nú má nálgast í samstæðureikningum félaga á vef Skattsins, sé ekki heimil lögum samkvæmt. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að málið hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi hjá stofnuninni í síðustu viku og álit þessa efnis hafi verið sent til Ríkisskattstjóra á miðvikudaginn.
Álitið hefur nú verið birt á vef Persónuverndar, en með ákvörðun stofnunarinnar er Skattinum gefinn mánuður til þess að hætta birtingu þessara upplýsinga.
Hægt að sjá eign allra hluthafa í skráðum félögum
Heildarhluthafalistar stórra félaga, þar á meðal allra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina, hafa að undanförnu verið aðgengilegir með samstæðureikningum sem nálgast má endurgjaldslaust á vef Skattsins.
Lagabreytingar sem gerðar voru á Alþingi á síðasta ári leiddu til þess að þessi víðtæka birting Skattsins hófst, en þar var um að ræða stjórnarfrumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun, sem átti að stuðla að auknu gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga.
Eftir að þessi lög tóku gildi fóru að birtast heildarhluthafalistar opinberlega með samstæðureikningum allra skráðra félaga, en þess er skemmst að minnast að fyrir nokkrum árum fetti Persónuvernd fingur út í það að Kauphöllin sjálf birti reglulega uppfærðar upplýsingar um 20 stærstu hluthafa skráðra félaga á vef sínum.
Nú er hægt að sjá upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni þúsunda einstaklinga með því að sækja samstæðureikninga skráðra félaga á vef Ríkisskattstjóra. Þannig má sjá í samstæðureikningi Icelandair Group, til dæmis, nöfn og kennitölur allra einstaklinga og fyrirtækja sem áttu hlut í félaginu síðustu áramót og hversu marga hluti hver og einn átti þá. Hið sama gildir um öll önnur skráð félög.
Forstjóri Persónuverndar sagði við Kjarnann í morgun að álit stofnunarinnar myndi birtist í hádeginu og að megininntak þess væri að „lög heimili ekki þessa víðtæku birtingu.“ Nú þegar álitið er birt að ljóst er að svo sé.
Persónuvernd segir að orðalag í lögum um ársreikninga feli að óbreyttu ekki í sér nægilega skýra heimild til birtingar lista yfir alla hluthafa félaga sem undir lögin falla með ársreikningum þeirra á opinberum vef ríkisskattstjóra.
Þá segir stofnunin að löggjafanum hefði „verið í lófa lagið að orða það með þeim hætti að engum vafa yrði undirorpið að slík upplýsingamiðlun rúmaðist innan orðalags ákvæðisins,“ en að óbreyttu samrýmist birting hlutafjáreignar einstaklinga ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttin var uppfærð eftir að álit Persónuverndar um málið var birt opinberlega.