Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, segir í nýjum pistli að staða efnahagsmála í Kína sé viðkvæm og mörg nýmarkaðsríki sem eigi mikið undir viðskiptum við Kína - sem samtals standi undir um helmingi heimsframleiðslunnar á ári - geti farið illa út úr varnarviðbrögðum Kínverja, meðal annars að veikja gjaldmiðilinn, júan, og lækka stýrivexti. Markmiðið með þessum aðgerðum er að örva kínverska hagkerfið, einkum útflutningshlið þess.
Peston segir í pistli sínum að seðlabankastjóri Indlands, Raghuram Rajan, hafi talað um það í viðtali við BBC fyrir skömmu að margir reiði sig um of á ákvarðanir seðlabanka. Þannig sé staða í heiminum um þessar mundir, ekki síst í Kína.
Ef grunnundirstöðurnar í hagkerfinu eru veikar þá geti farið illa, segir Peston en margir fjárfestar og sérfræðingar hafa að undanförnu sagt veikleika hafa berast í Kína að undanförnu.
Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, er einn þeirra en hann fullyrti á fundi í New York á dögunum að hagtölur stjórnvalda í Kína væru falskar og ekki samanburðarhæfar við önnur þróuð ríki. Hagvöxtur í landinu yrði ekki um sjö prósent, eins og spár stjórnvalda gerðu ráð fyrir, heldur nær 4,5 prósent.