Á hverju ári nota Pólverjar 10 milljónir tonna af kolum til að hita hús sín, um 87 prósent af allri kolanotkun Evrópusambandsins í þeim tilgangi. Um helmingur kolanna er unninn innan landamæra Póllands en síðustu ár hafa um 40 prósent verið flutt inn frá Rússlandi eða um 4 milljónir tonna á ári. En nú þegar stjórnvöld í Póllandi hafa bannað innflutning á rússneskum kolum vegna innrásarinnar í Úkraínu er þeim vandi á höndum.
Það er dýrt að vinna kol í Póllandi og því hafa rússnesku kolin, sem eru mun ódýrari, hentað hingað til, segir talsmaður umhverfisverndarsamtakanna Smog Alert, í samtali við þýska fjölmiðilinn Deutsche Welle, DW.
Rússlensku kolin hafa hingað til verið notuð til að kynda verksmiðjur í austurhluta Póllands. Og það er ekki einfalt mál að skipta þeim út fyrir pólsk kol að sögn sérfræðinga. Þau rússnesku eru, þrátt fyrir að vera ódýrari, af betri gæðum og innihalda minna brennisteinstríoxíð en þau pólsku.
Annað vandamál felst í því að á síðasta ári samþykktu stjórnvöld í Póllandi loks að draga úr kolanotkun og framleiðslu sinni svo hægt verði að mæta losunarmarkmiðum sem Evrópusambandið skuldbatt sig til á Loftslagsráðstefnunni í Glasgow. Samkvæmt þeim áformum samþykktu Pólverjar til dæmis að að hætta við frekari innviðauppbyggingu í kolaiðnaði.
Verð á pólskum kolum hefur hækkað mikið upp á síðkastið og talið er víst að margir, fyrirtæki sem og heimili, muni verða í vandræðum með að greiða orkureikninga sína. Sérstaklega eru þeir lægst launuðu taldir í miklum vanda í þessum efnum. Og veturinn, sem oft getur verið kaldur á þessum slóðum, er framundan.
Stjórnvöld ætla sér að létta undir með þeim og eiga neytendur að fá eingreiðslu sem hugsuð er til að greiða niður húshitunarkostnað. Þá hafa þau skipað tveimur kolafyrirtækjum í ríkiseigu að niðurgreiða kol til fátækustu íbúa landsins.
En sérfræðingar segja þessar aðgerðir ekki duga til.
Kolabirgðir Póllands hafa ekki verið minni síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Þegar það hægði á hagkerfinu í heimsfaraldrinum safnaðist mikið magn kola upp en verulega hefur gengið á þær birgðir síðustu vikur og mánuði. Ljóst þykir að skortur á kolum verði í vetur.
Vegna hins yfirvofandi kolaskorts hafa pólsk orkuverið verið að draga úr rafmagnsframleiðslu sinni. Hluti rafmagnsins hefur verið fluttur til nágrannaríkja en nú hefur verið dregið úr þeim útflutningi. Í júlí urðu þau tímamót í fyrsta skipti í langan tíma að Pólverjar flutti meira rafmagn inn en út.
Dýrt að flytja kol þvert yfir hnöttinn
Pólsk stjórnvöld eru að leita samninga við önnur kolaríki en Rússland og hafa m.a. horft til Kólumbíu, Ástralíu, Suður-Afríku og Indónesíu. Sá innflutningur yrði alltaf mjög dýr, bæði vegna flutningskostnaðar og framleiðslukostnaðar í þessum löndum. Að flytja aðföng til Póllands um Eystrasaltið er svo ekki einfalt mál þar sem miklir hergagnaflutningar eru þar nú í fyrirrúmi vegna stríðsátakanna í Úkraínu.
Innflutningur gæti þó reynst nauðsynlegur þar sem ekki er hægt að auka kolaframleiðslu í Póllandi á aðeins nokkrum mánuðum.
Þannig að vandinn er mikill og enn óleystur. Meðal þess sem til greina kemur að gera er að aflétta banni við sölu á kolum af mjög lélegum gæðum, banni sem sett var á árið 2020 í viðleitni til að hægja á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þá hafa stjórnvöld þegar heimilað fólki að afla sér eldiviðar í skógum landsins.
Allt hangið þetta svo saman við yfirvofandi orkuskort í öðrum löndum ESB. Mörg þeirra eru farin að draga úr notkun jarðefnaeldsneyta og Frakkar og Þjóðverjar hafa sett sér háleit markmið um lokun kjarnorkuvera. Þetta hefur, í allsherjar skorti vegna stríðsins í Úkraínu, orðið til þess að eftirspurn eftir gasi og kolum hefur stóraukist. Rætt hefur verið um að kveikja aftur á kjarnorkuverum í Frakklandi af þessum sökum.
Enginn hafði reiknað með að hætta þyrfti innflutningi á rússneskum kolum. Ekki var gert ráð fyrir slíku í neinum áætlunum pólskra stjórnvalda. Og þegar þau gripu til þeirra aðgerða í apríl var ekki spurt hvað myndi koma í staðinn og alltof seint farið af stað í að finna leiðir til að koma í veg fyrir alvarlegt ástand.