Prófkjörsbarátta Diljár Mistar Einarsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins kostaði rúmlega 4,5 milljónir króna, samkvæmt uppgjöri frambjóðandans, sem hún lét Kjarnanum í té. Þar af fóru tæpar 2 milljónir króna í auglýsingar og tæp 1,8 milljón í reksturkosningaskrifstofu, auk þess sem starfsmannakostnaður var 800 þúsund krónur.
Frambjóðendur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna hafa þrjá mánuði frá prófkjörsdegi til þess að ýmist skila inn uppgjöri eða yfirlýsingu um að kostnaður þeirra við framboðsbaráttuna hafi verið undir 500 þúsund krónum. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fór fram í byrjun júní.
Dilja Mist segist vera búin að skila inn uppgjöri sínu til Ríkisendurskoðunar og það er undirritað þann 10. september, en stofnunin hafði þó ekki birt uppgjör hennar á þar til gerðu vefsvæði síðdegis í gær.
Þar má nú nálgast uppgjör eða yfirlýsingar langflestra þeirra sem sóttust eftir efstu sætum í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, en ekkert var þar þó að finna varðandi framboð Diljar Mistar né Vilhjálms Árnasonar, sem laut lægra haldi í prófkjörsbaráttu í Suðurkjördæmi gegn Guðrúnu Hafsteinsdóttur.
Samkvæmt uppgjöri framboðs Diljár Mistar fékk hún 2,5 milljónir í framlög frá alls 17 einstaklingum. Þar af veittu Einar Sveinn Hálfdánarson faðir Diljár og Regína Gréta Pálsdóttir bæði 400 þúsund króna framlag til framboðsins.
Níu fyrirtæki styrktu framboð Diljár Mistar um samtals 1,75 milljón, en þar af veittu Endurskoðunar/lögmannsstofan sf., sem er í meirihlutaeigu Einars Sveins og Takanawa ehf., sem er í fullri eigu Bolla Skúlasonar Thororoddsen, hámarksstyrk, sem er 400 þúsund krónur.
Dilja Mist lagði síðan sjálf rúmar 200 þúsund krónur til framboðsins til þess að mæta rekstrargjöldum sem voru umfram fengin framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Í samfloti með Guðlaugi Þór í baráttunni
Diljá Mist, sem hefur undanfarin ár verið aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, náði þeim árangri sem hún stefndi að í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en hún sóttist eftir og náði þriðja sætinu. Hún rak áberandi kosningabaráttu sem hófst með opnuauglýsingum í dagblöðum og fyrir kosningar var mikið hringt út til sjálfstæðismanna fyrir hennar hönd, í samstarfi við Guðlaug Þór.
Guðlaugur Þór var einmitt sá frambjóðandi í öllum prófkjörum Sjálfstæðisflokksins sem varði mestu fé í baráttu sína, en hann sóttist eftir og náði fyrsta sæti í prófkjörinu í Reykjavík. Hann varði rúmum 11 milljónum króna í slaginn um fyrsta sætið gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálararáðherra, sem sjálf setti 8,7 milljónir króna í baráttuna.