Vladímir Pútín, forseti Rússlands og trúnaðarmenn hans, tilkynntu bandarískum yfirvöldum um það með klukkutíma fyrirvara, að rússneski herinn hygðist hefja loftárásir á valin skotmörk í Sýrlandi. Rússar hafa sagt að árásirnar beinist að Íslamska ríkinu, en loftárásirnar í dag, á borgina Homs, virtust fyrst og fremst hitta fyrir skæruliða sem hafa barist við stjórnarher Sýrlands, samkvæmt frásögn New York Times. Borgin er ekki á valdi Íslamska ríkisins, en vígamenn þess hafa þó barist innan borgarmarka.
Ákvörðun Rússa er á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC sögð tefja fyrir því að pólitísk samstaða náist um það hvernig skuli stilla til friðar í Sýrlandi, en Bandaríkin, Frakkland og Bretland hafa ekki viljað vinna með stjórnvöldum í Sýrlandi meðan Bashar al-Assad er forseti og æðsti yfirmaður hersins.
Borgarastríðið í Sýrlandi hefur nú þegar kostað að minnsta kosti 250 þúsund manns lífið og yfir 800 þúsund hafa slasast. Um tíu milljónir manna, af 22 milljóna heildarfjölda, hafa flúið heimili sín.
Bandarísk stjórnvöld sögðu í dag að ákvörðun Rússa væri vonbrigði og að þeir gætu ekki einir stutt Assad og stjórn hans. Slíkt gæti grafið undan möguleikanum á friðsamlegri lausn.
Russian airstrikes in Syria: White House says Putin cannot act alone – live http://t.co/pWMADDN18i
— The Guardian (@guardian) September 30, 2015