Vladimír Pútín, forseti Rússlands, gagnrýndi Bandaríkin í hátíðarræðu sinni á Rauða torginu í dag fyrir að vera að „reyna að skapa einhliða heim“. Sigri í seinni heimstyrjöldinni er fagnað í dag í skugga átaka í Úkraínu og erfiðra aðstæðna á alþjóðapólitískum vettvangi.
Í dag eru liðin 70 ár frá því að seinni heimstyrjöldinni lauk með falli Þýskalands nasismans í hendur Sovétmanna og að venju er Rauða torgið í Moskvu lagt undir hátíðarhöld á þessum Sigurdegi. Frá þessu er meðal annars greint á The Guardian.
Þrátt fyrir boð um vera viðstödd hátíðarhöldin í Moskvu létu leiðtogar annara sigurþjóða í seinni heimstyrjöldinni ekki sjá sig. Það eru leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Leiðtogar Kína, Kúbu og Venusúela þekktust hins vegar boð Pútíns. Angela Merkel mun þó leggja leið sína til Moskvu á morgun til að leggja blómsveig að leiði óþekkta hermannsins og hitta Pútín.
Í ræðu sinni í dag notaði Pútín þekktan frasa Rússaleiðtoga um að Bandaríkin séu að grafa undan samvinnu í alþjóðamálum og sagði heiminn hafa séð „síðustu áratugi tilraunir til að skapa einhliða heim.“ Frasann hafa leiðtogar Rússa notað þegar þeim finnast Bandaríkin reyna að einoka heimsmálin. Þetta segir Pútín vegna þess að viðskiptaþvinganir vesturveldanna hafa hoggið skarð í rússneskan efnahag undanfarið.
Pútin hefur þess vegna lagt meiri stund við að rækta samband Rússlands við Kína í austri, þar sem Xi Jinping ræður ríkjum. Jinping stóð ásamt Pútín á Rauða torginu í dag og fylgdist með gríðarstórri hersýningu eins og þær sem Sovétmenn héldu til að undirstrika hernaðarmátt sinn.
Í hersýningunni í ár stærði rússneski herinn sig af nýjustu hertækni sinni. 16.000 hermenn í fylgd Armata-skriðdreka og annara þungra hergagna marseruðu yfir torgið, auk þess sem vopn úr seinna stríði voru dregin fram til samanburðar. Þá sýndi rússneski herinn RS-24 Yars ICBM-skotflaugarnar í fyrsta sinn. Það vopn segja ráðamenn í Moskvu vera svar Rússa við eldflaugavörnum NATO vestan landamæranna.