Þau eru drepin, pyntuð og limlest, þeim rænt og nauðgað. Þau eru látin taka þátt í vopnuðum átökum og þvinguð í hjónabönd. Hryllilegar afleiðingar stríðsátaka á börn hafa aldrei verið meiri – aldarfjórðungi eftir að alvarleg brot gegn börnum í stríði voru staðfest í skýrslu sem kynnt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan fletti hulunni af földum afleiðingum átaka á börn og niðurstaðan var skuggaleg. Í henni var því lýst hvernig börn væru drepin, svipt frelsi og tækifærum til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Hvernig þau væru beitt ofbeldi og notuð í vopnuðum átökum. Hvernig þau væru markvisst svipt öryggi og vernd. Brotin niður.
Kallað var eftir aðgerðum. Að ofbeldi gegn börnum yrði stöðvað. Í nýrri skýrslu UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, er fjallað um þær aðgerðir sem ráðist var í og hver árangurinn af þeim hefur verið. Það er óhætt að segja að þótt hann sé einhver á ákveðnum svæðum, þar sem stríðandi fylkingar hafa skrifað undir sáttmála þar um, er sú skelfing sem börn á átakasvæðum búa við enn gríðarlega mikil og hefur aldrei verið meiri. Alvarleg brot gegn þeim skipta þúsundum, jafnvel tugum þúsunda, á hverju ári.
Niðurstaða nýju skýrslunnar er að fjöldi brota gegn börnum í stríði hafi farið stigvaxandi frá árinu 2005. Hann fór fyrst yfir 20 þúsund á ári árið 2014 og endaði í 26.425 skráðum tilfellum árið 2020. Á tímabilinu 2016 til 2020 var meðaltal alvarlegra brota gegn börnum á átakasvæðum 71 á dag. Og þar með er ekki öll sagan sögð því vissulega fara þessi brot oftast leynt og erfitt að festa nákvæmlega fingur á umfang þeirra.
Á árunum 2005 til 2020 hafa Sameinuðu þjóðirnar staðfest 266 þúsund alvarleg brot gegn börnum á yfir 30 átakasvæðum víðs vegar um Afríku, Asíu, Mið-Austurlöndum og rómönsku Ameríku.
Börn eiga aldrei sök í stríði en engu að síður eru það börn sem bera mestan skaða af vopnuðum átökum, segir í skýrslunni. Á árunum 2005-2020 voru staðfest tilfelli skráð um að:
- 104.100 börn hafi verið ýmist drepin eða þau særst alvarlega í stríðsátökum.
- 93.000 börn hafi verið neydd til hermennsku í stríðsátökum.
- 25.700 börn hafi verið numin á brott af stríðandi fylkingum.
- 14.200 börnum hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi.
- 13.900 skólar og sjúkrahús hafi sætt árásum
- 14.900 tilfelli um að börnum sé meinaður aðgangur að mannúðaraðstoð frá stríðandi fylkingum.
Skýrslan varpar ljósi á að brot gegn börnum eiga sér stað af hálfu allra aðila stríðs, bæði stjórnarhermanna, uppreisnarmanna og annarra stríðandi fylkinga þó meirihluti brota séu framin af hálfu uppreisnarmanna. UNICEF bendir á í skýrslunni að þetta undirstriki mikilvægi þess að ná til allra aðila átaka, ekki aðeins stjórnvalda, til að tryggja vernd barna.
Í skýrslunni kemur fram að mörg börn verði fyrir ítrekuðum brotum. Þannig geti barn sem er numið á brott verið neytt til að gegna hermennsku en líka sætt kynferðislegu ofbeldi eða annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Í Malí, svo dæmi sé tekið, var um helmingur þeirra sextíu stúlkna sem neyddar voru til hermennsku á árunum 2017-2020 beittar kynferðisofbeldi og margar þeirra þvingaðar til að að giftast ofbeldismönnunum.
Af að minnsta kosti 6.411 börnum sem þvinguð voru til hermennsku í Sýrlandi og Jemen á árunum 2013-2018 létust að minnsta kosti 635 eða voru limlest í átökum sem þau voru látin taka þátt í.
Skýrsluhöfundar benda einnig á að það að nota börn til að bera eða koma fyrir sprengjum hafi færst í vöxt. Slík mál hafa verið staðfest í Afganistan, Írak, Sýrlandi, Jemen og Tjad á síðustu árum. Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa notað tugi barna, oftast stúlkur, til að koma fyrir sprengibúnaði á átakasvæðum í norðausturhluta Nígeríu. Samtökin eru farin að nota þessa aðferð í fleiri löndum sem þau hafa komið sér fyrir í.
Börn verða einnig fyrir pyntingum á átakasvæðum. Í Írak, sem dæmi, hafa börn verið tekin af lífi eða látist í kjölfar pyntinga, eftir að hafa verið sökuð um njósnir eða að vera hliðholl andstæðingum. Í Kólumbíu hafa börn verið drepin fyrir að strjúka úr haldi vopnaðra hópa.
Í skýrslunni, sem byggir á margra ára greiningu og gögnum, er lögð áhersla á að markmiðið verði að setja vernd barna í forgrunn með því að virkja alla hlutaðeigandi, þar á meðal stríðandi fylkingar, ríki, og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og flýta aðgerðum í þá veru á öllum stigum.
Árásir á börn eru skýrt brot gegn alþjóðalögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. UNICEF krefst þess að stríðandi aðilar, ríki og aðrir hlutaðeigandi virði skuldbindingar sínar um að vernda börn í stríðsátökum og að alþjóðasamfélagið beiti kröftum sínum og áhrifum í þágu friðar. Auk þess útlistar skýrslan hvernig:
- Betur megi auka umönnun og viðbragðsþjónustu fyrir börn sem þjást vegna stríðs.
- Bæta megi gagnaöflun og greiningu til að bæta viðbrögð og forvarnir.
- Styðja megi betur við sérstaka starfshópa og eftirlitsaðila, s.k. Country Task Forces on Monitoring and Reporting (CTFMR).
- Finna megi betri leiðir til að ná til allra hópa stríðandi aðila til að koma á fót aðgerðaráætlun um vernd barna í átökum.
„Skýrsla þessi leggur spilin á borðið og sýnir, svo ekki sé um villst, að heimsbyggðin fær falleinkunn í að vernda börn gegn alvarlegum brotum í stríði,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Alvarleg brot gegn réttindum barna hefur víðtæk áhrif á börnin, fjölskyldur þeirra og samfélög. Við hreinlega neitum að samþykkja brot gegn börnum sem óumflýjanlegan fylgifisk stríðs.“