Frestur fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabanka Íslands til að veita samþykki sitt, eða hafna, samkomulagi um lengingu á greiðslum skuldabréfs milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans hefur verið framlengdur til 30. september. Upphaflega átti niðurstaða að liggja fyrir í síðasta lagi 8. ágúst, sem var síðastliðinn föstudag. Þetta hefur fengist staðfest hjá slitastjórn Landsbankans.
Þann 5. maí var tilkynnt að samkomulag hefði náðst milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans um breytingu á uppgjörsskuldabréfum með eftirstöðvar að jafnvirði 226 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri. Upphaflega átti að greiða skuldabréfin upp fram til ársins 2018. Löngu var orðið ljóst að það myndi setja þungar byrðar á íslenskt samfélag þar sem greiðslur í erlendum gjaldeyri næstu árin vegna bréfanna væru mun meiri en gjaldeyristekjur hagkerfisins myndu ráða við, sérstaklega þegar tekið er tillit til allra annarra greiðslna sem íslenska ríkið, sveitafélög og fyrirtæki þurfa að greiða í erlendum myntum á tímabilinu.
Í samkomulaginu fólst að greiðslutími bréfanna yrðu lengdur fram til október 2026. Samkomulagið var að margra mati, sérstaklega samningsaðilanna, undanfari að því að létt yrði á fjármagnshöftum.
Fyrir hefur legið að bæði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, og Seðlabanki Íslands, þurfi að samþykkja samkomulagið áður en það tekur gildi. Frestur var gefin til 8. ágúst til að þeir aðilar, og sérfræðingar á þeirra vegum, gætu skoðað áhrif og afleiðingar samkomulagsins á íslenskt hagkerfi og áætlanir þeirra um léttingu hafta.
Nú er ljóst að sá tími hefur ekki verið nægjanlegur og samningsaðilar hafa veitt ráðherranum og Seðlabankanum aukin frest til að komast að niðustöður.