Þeim stjórnmálasamtökum sem hyggjast bjóða sig fram til sveitarstjórnarkosninga í vor er ekki skylt að skrá sig formlega sem stjórnmálasamtök fyrir kosningarnar, samkvæmt uppfærðri fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Í tilkynningunni, sem birtist á vef stjórnarráðsins í gær, sagði upphaflega að samtök sem ætluðu sér að bjóða fram lista til sveitarstjórna þyrftu að skrá sig formlega sem stjórnmálasamtök og talað um þau nýnæli sem fylgifisk þess að ný kosningalög hefðu tekið gildi um síðustu ára mót.
En þetta var „missagt“ í tilkynningunni sem birtist í gær, segir ráðuneytið.
Skráning stjórnmálasamtaka er þannig ekki fortakslaus skylda fyrir þau samtök sem ætla að bjóða fram til sveitarstjórna 14. maí næstkomandi.
Þurfa að skrá sig ef þau ætla að fá fjárframlög
Hins vegar er, að sögn ráðuneytisins, skylda fyrir stjórnmálasamtök að skrá sig sem slík hjá Ríkisskattstjóra ef þau ætla að þiggja fjárframlög frá sveitarfélögum, en þeir flokkar sem eiga fulltrúa í sveitarstjórnum eða fá að minnsta kosti 5 prósent atkvæða í kosningum fá slík framlög.
Kjarninn sagði frá efni tilkynningar ráðuneytisins í gær og sömuleiðis því að sem stendur eru einungis Viðreisn og Samfylkingin formlega skráð sem stjórnmálasamtök í sérstakri stjórnmálasamtakaskrá sem birt er á vef stjórnarráðsins.
Ákvæði um að stjórnmálasamtök geti skráð sig sérstaklega sem slík hjá Ríkisskattstjóra var bætt inn í lög um starfsemi stjórnmálasamtaka í fyrra.
Í þeim lögum segir að Ríkisskattstjóri skrái stjórnmálasamtökin og starfræki í því skyni stjórnmálasamtakaskrána, sem birt skuli almenningi á vef stjórnarráðsins ásamt upplýsingum sem fylgi umsóknum stjórnmálasamtakanna um skráningu.