Stærsta bílaframleiðslufyrirtæki í heimi, japanski risinn Toyota, hefur í vikunni verið sagt reyna að hafa áhrif á stefnu bandarískra stjórnvalda varðandi hvata til þess að fá neytendur til að skipta yfir í rafmagnsbíla.
Í umfjöllun New York Times um málið segir að á undanförnum mánuðum hafi fulltrúar Toyota beitt sér gegn því, á bak við tjöldin á fundum í bandaríska þinginu, að stór skref verði tekin í þá átt að reyna að draga bandaríska neytendur í átt að rafmagnsbílum.
Fulltrúi fyrirtækisins er sagður hafa komið því áleiðis við fulltrúa á vegum þingmanna að í bílaflota náinnar framtíðar ættu bæði tvinnbílar og bílar sem ganga fyrir vetni að vera í stærra hlutverki en þeim er ætlað í áætlunum ríkisstjórnar Joe Biden, sem ætlar að verja milljörðum dollara á næstu árum til þess að styðja við orkuskipti í bílaflota Bandaríkjamanna. Framtíðin sem Biden-stjórnin sér fyrir sér er fyrst og fremst rafmögnuð.
Toyota er ekki bara búið að beita sér gegn eða reyna hægja á umskiptunum yfir í rafmagn í Bandaríkjunum, heldur einnig í ríkjum ESB, Bretlandi, Indlandi og í heimalandinu Japan. Ástæðan er sögð sú að fyrirtækið hefur dregist aftur úr keppinautum sínum hvað rafbíla varðar og setið á hliðarlínunni á meðan að fyrirtæki á borð við Tesla, Volkswagen, Nissan og fleiri hafa tekið forystu.
Toyota veðjaði á það fyrir nokkrum árum að vetnisbílar yrðu til framtíðar aðalmálið í bílaheiminum. Sú tækni er þegar orðin töluvert dýrari en framleiðsla rafhlaðna fyrir ökutæki og óvíða er hægt að fylla á tankinn með vetni.
Þetta hefur hefur sett áætlanir Toyota í uppnám. Bílaframleiðandinn Honda, sem einnig sá fyrir sér vetnisdrifna framtíð, hefur þegar sett áætlanir sínar á hilluna. En Toyota hefur gripið til hagsmunagæslu, sem gagnrýnendur sem New York Times ræðir við segja að gæti orðið umhverfinu skaðleg og hamlað umskiptum yfir í hreinni bílaflota.
Í yfirlýsingu frá Toyota vegna þessa máls sagðist fyrirtækið alls ekki vera á móti rafmagnsbílum. Það væri staðreynd að þeir væru framtíðin. Fyrirtækið telur þó að það sem muni gerast á meðan stökkið verði tekið yfir í 100 prósent rafdrifna framtíð fái of litla athygli í umræðunni.