Árið 2020 var það versta með tilliti til þess hversu mörg börn slösuðust alvarlega í umferðinni en alvarleg slys geta falið í sér beinbrot og álíka meiðsli og eru ekki endilega lífshættuleg. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem ber heitið Börn og samgöngur. Þar segir að aukninguna megi „að líkindum að megninu til skýra með tilkomu rafknúinna hlaupahjóla (rafskúta) og rafmagnsvespa.“
„Á árabilinu 2011-2020 slösuðust árlega á milli 80 og 130 börn undir 14 ára aldri. Þegar rýnt er í tölurnar sést að fleiri börn á aldrinum 7-14 ára slasast en þau sem yngri eru. Hlutfallið hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin ár,“ segir um fjölda slysa óháð alvarleika. Þessi tala nær yfir þau slys sem rata inn í gagnagrunn Samgöngustofu og því hægt að gera ráð fyrir að mörg minni óhöpp rati ekki þangað.
Að meðaltali 1,6 á bráðamóttöku á hverjum degi vegna rafskúta
Í kafla skýrslunnar sem snýr að slysatölfræði barna og ungmenna er sérstaklega farið niðurstöður samantektar bráðamóttöku Landspítalans um tölfræði yfir einstaklinga sem leituðu til þangað sumarið 2020 vegna slysa á rafhlaupahjóli.
„Niðurstöður voru þær að á rannsóknartímabilinu leituðu 149 einstaklingar aðstoðar vegna slíkra slysa, að meðaltali 1,6 á dag. Aldursbilið var frá 8 árum upp í 77 ár; 45% voru yngri en 18 ára og 58% voru karlkyns. Í 60% tilvika reyndist orsök slyss vera að farið hafi verið of hratt, viðkomandi misst jafnvægi eða ójafna í götu. Reyndust 79% barna hafa notað hjálm en einungis 17% fullorðinna.“
Af þeim sem voru eldri en 18 ára og leituðu til bráðamóttöku vegna slyss á rafhlaupahjóli reyndust 40 prósent hafa verið undir áhrifum áfengis þegar slysið átti sér stað. Engin börn voru undir áfengis eða vímuefna. Alls voru 38 prósent með beinbrot og sex prósent þurftu innlögn á sjúkrahúsið til eftirlits eða meðferðar. Enginn var alvarlega slasaður samkvæmt AIS flokkun.
Algengasta orsök hjólaslysa meðal barna er engu að síður sú að bifreið aki á hjólreiðamann. Um fjórðungur slysa meðal hjólandi barna er vegna falls af hjóli. „Þetta hlutfall er svipað og verið hefur að jafnaði síðastliðin 10 ár.“
Horfa þurfi til þarfa barna við stefnumótun
„Ljóst má vera að staða barna og ungmenna í samgöngum er sérstök og full ástæða til þess að stefnumótun í málaflokknum taki sérstaklega á henni,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar. Ferðavenjur barna og ungmenna séu fjölbreyttari en þeirra sem eldri eru, þrátt fyrir að þau ferðist „jafnvel ívið fleiri ferðir á degi hverjum að jafnaði.“
Þá nota börn og ungmenni virka ferðamáta og almenningssamgöngur mun meira en aðrir en ferðast síður með innanlandsflugi en hinir eldri. „Bestu sóknarfæri til þess að stuðla að breyttum ferðavenjum allra felast í því að hlúa betur að þessu ferðamynstri barna og ungmenna, enda eru þau ekki með sama fastmótaða ferðavenjumynstur og þeir sem eldri eru.“