Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er hættur við framboð sitt til forseta Alþýðusambands Íslands. Þetta herma heimildir mbl.is og RÚV. 45. þing ASÍ hófst í gær og kosning í embætti hefst eftir hádegi á morgun.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, er ein í framboði til forseta ASÍ.
mbl.is segir Ragnar hafa vísað í stöðuuppfærslu Halldóru Sveinsdóttur, formanns Bárunnar, þegar hann greindi frá ákvörðun sinni. Í færslu sinni á Facebook gagnrýnir hún Ragnar harðlega og spyr hvort að það að koma sterk út úr þinginu þýði hreinsanir í ASÍ, aðra hópuppsögn starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar?
Samkvæmt heilmildum Kjarnans hafa Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sem gefa kost á sér í embætti 2. og 3. varaforseta, dregið framboð sín til baka. Það sama á við um Hörð Guðbrandsson, formann Verkalýðsfélags Grindavíkur. Sólveig Anna sagðist í samtali við fréttamann RÚV ekki ætla að mæta á þing ASÍ þegar því verður fram haldið á morgun.
„Ég mun að sjálfsögðu ekki mæta og ég veit ekkert hvað gerist hér á morgun á þessu þingi,“ sagði Sólveig Anna. Ragnar Þór gaf ekki kost á viðtali.
Drífa Snædal sagði af sér embætti forseta 10. ágúst og sagði hún samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefði átt sér stað gera sér ókleift að starfa áfram sem forseti.
Ragnar Þór greindi frá framboði sínu um miðjan september. Í samtali við Kjarnann sagði hann að í aðdragandanum hafi hann átt fundi með forystufólki úr aðildarfélögum innan ASÍ til að kanna hvort stuðningur væri við þær hugmyndir sem hann hefði um framtíð sambandsins og áherslubreytingar í störfum þess næðu út fyrir þann hóp stéttarfélaga sem staðið hefðu „dálítið þétt saman“ og átti hann þar við stéttarfélög í Grindavík, Akranesi og svo Eflingu stéttarfélag.
Mótframboðið kom svo í síðustu viku þegar Ólöf Helga tilkynnti sitt framboð til forseta. Í framboðstilkynningu sinni sagði Ólöf Helga að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vilji nú í valdabandalagi við Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálm Birgisson, taka yfir ASÍ. Í gegnum hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar fórnuðu þau trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar og félagsfólki fyrir eigin valdahagsmuni. Óljóst er hvað þríeykið vill með sambandið. En það hefur komið skýrt fram að þau munu ekki hafa rúm fyrir aðrar skoðanir en sínar eigin og vilja stjórna í krafti meirihlutaræðis. Allir sem mótmæla þeim fá yfir sig fúkyrðaflaum – og þegar önnur sjónarmið eru sett fram er þeim mætt með hótunum og offorsi.“
Einn af möguleikunum að skilja sig frá ASÍ
Sólveig Anna fór yfir sögu ágreinings innan ASÍ síðustu fjögur ár í greinaflokki á Kjarnanum í sumar. Þar sagði hún meðal annars að áður fyrr var ASÍ bæði breytingarafl fyrir réttlæti í íslensku samfélagi og mótstöðuafl gegn óréttlæti. „Í dag er Alþýðusamband Íslands það ekki. Þvert á móti hefur sambandið orðið meðvirkt með íslenska auðvaldskerfinu, sem er ótrúlegt í ljósi þess að ef einhver stofnun ætti að hafna þess konar meðvirkni þá er það Alþýðusambandið,“ skrifar Sólveig meðal annars.
Í greinarflokki sínum segir hún tvær leiðir vera færar fyrir íslenska verkalýðshreyfingu út úr þeim vanda sem alþýðusambandið glímir við.
Annars vegar sú að Alþýðusambandið horfist í augu við þá breyttu stöðu sem upp er komin, lagi sig að henni og breyti um kúrs. Farið verði í djúpa og alvarlega vinnu við að endurmeta stefnuna. „Ég legg til að í þeirri vinnu verði viðurkennt að verkefni íslenskrar verkalýðshreyfingar er ekki lokið. Þvert á móti er raunverulegt og stórt verk að vinna í baráttu við auðstéttina og sérhagsmunaöflin. Skylda sambandsins er að þróa og leiða þetta verkefni, og vera óhrætt við að skora á hólm þær ýmsu stofnanir valdsins sem standa vörð um óbreytt ástand, sama hvort það eru lífeyrissjóðir, fjármálakerfið, Samtök atvinnulífsins eða ríkisstjórnin. Þá þarf Alþýðusambandið að viðurkenna fyrir sjálfu sér að eina vopnið sem getur leitt til árangurs í verkalýðsbaráttu eru verkföll eða trúverðug hótun um beitingu þeirra.“
Takist ASÍ ekki að breyta um kúrs er aðeins ein önnur leið fær, að mati Sólveigar Önnu. „Hún er sú að þau félög sem vilja starfa í verkalýðshreyfingu sem er raunverulegt framfara- og mótstöðuafl skilji sig frá sambandinu.“