Atvinnuvegaráðuneytið segir að það hafi unnið að reglugerð í samstarfi við ársreikningaskrá um nokkurt skeið svo ákvæði laga sem heimilar að félögum sem skila ekki ársreikningum 14 mánuðum eftir að rekstrarári líkur verði slitið geti virkjast.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að drög að reglugerðinni séu á lokametrunum og að búist sé við að þau fari í samráðsgátt stjórnvalda í næstu viku, líklegast á mánudag.
Árið 2016 voru viðurlög við því að skila ársreikningum seint eða alls ekki hert umtalsvert með lagabreytingu. Tilgangurinn var að bæta skil en einnig að sporna gegn kennitöluflakki og auka gagnsæi.
Samkvæmt lögunum um ársreikninga á að skila inn slíkum innan átta mánaða frá því að rekstrarári lýkur. Það þýðir að flest félög, sem miða við almanaksárið í rekstri sínum, þurfa að skila ársreikningi fyrir lok ágústmánaðar á hverju ári. Geri þau það ekki getur Skatturinn lagt á félögin sekt. Hún er þó afar lág, 600 þúsund krónur, og lítið mál fyrir fyrirtæki sem vilja ekki sýna inn á rekstur sinn að greiða hana.
Hin viðurlögin sem lagabreytingin heimilaði eru þyngri og heimila ársreikningaskrá að slíta félögum sem ekki skila ársreikningum innan sex mánaða eftir að upphaflegi fresturinn rennur út, eða alls 14 mánuðum eftir að rekstrarári líkur.
Aldrei beitt ákvæðinu
Þrátt fyrir að fjölmörg félög hafi ekki skilað ársreikningum innan þess 14 mánaða ramma sem þau þurfa frá lokum rekstrarárs til að forðast upplausn á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að lögin voru sett, þá hefur Skatturinn aldrei beitt ákvæðinu.
Málefni ársreikningaskrár heyra undir atvinnuvegaráðuneytið. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir stýrir þeim hluta ráðuneytisins sem fer með þau málefni. Nú stendur til að birta drög að reglugerðinni í samráðsgátt stjórnvalda og vonast er til að það verði gert í næstu viku.
Risavaxið fyrirtæki grunað um efnahagsbrot skilar ekki ársreikningum
Ástæða þess að Kjarninn spurðist fyrir um málið er að eitt stærsta fyrirtæki landsins, Samherji Holding, hefur ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2019 þrátt fyrir að hafa átt að gera það á síðasta ári. Samkvæmt lögum um ársreikningaskrá hefði heimild skattayfirvalda til að slíta félaginu vegna vanskila á ársreikningi að hafa virkjast í lok febrúar síðastliðins.
Eigið fé Samherja Holding var rúmlega 58 milljarðar króna í lok árs 2018, samkvæmt síðasta ársreikningi sem félagið hefur birt. Félagið heldur utan um þorra erlendrar starfsemi Samherjasamstæðunnar, en umfangsmikil rannsókn hófst á henni á árinu 2019, eftir opinberun fjölmiðla á starfsháttum Samherja í Namibíu. Grunur er um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Málið er til rannsóknar hérlendis hjá bæði embætti héraðssaksóknara og skattayfirvöldum auk þess sem ákært hefur verið í því í Namibíu.
Kjarninn óskaði skýringum frá forsvarsmönnum Samherja Holding um ástæður þess að fyrirtækið hefði ekki skilað inn ársreikningnum, líkt og lög gera ráð fyrir, í upphafi árs. Í svari þeirra sagði að enn væri unnið að gerð reikningsins, og að sú vinna hefði tafist af ýmsum ástæðum. „Ársreikningi 2019 fyrir Samherja Holding ehf. verður skilað þegar hann er tilbúinn, sem verður innan ekki langs tíma.“
Í júní hafði reikningnum enn ekki verið skilað og því sendi Kjarninn aðra fyrirspurn um málið til Samherja Holding. Henni var ekki svarað.