Talsverðar breytingar hafa orðið á réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum eftir að lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga var breytt undir lok nýlokins þingvetrar. Vonir eru bundnar við að þetta muni færa brotaþolum kynferðisofbeldis réttlátari málsmeðferð í gegnum réttarkerfið, að sögn Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta, en hún segir í samtali við Kjarnann að samtökin hefðu engu að síður viljað sjá fleiri atriði rata inn í nýsamþykkt lagabreytingafrumvarp.
Frumvarpið sem um ræðir var lagt fram af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra í mars og samþykkt á lokametrum þingsins, um miðjan mánuð. Með breytingunum sem gerðar eru á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga er leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda.
Í greinargerð frumvarpsins segir að það hafi tekið miklum breytingum frá eldra frumvarpi í kjölfar umsagna. „Tekið var tillit til umsagna um rétt brotaþola til aðgangs að gögnum á rannsóknarstigi, til að vera viðstaddur lokað þinghald, til að leggja spurningar milliliðalaust fyrir skýrslugjafa við meðferð máls fyrir dómi og leggja þar fram sönnunargögn, til að ávarpa dóm í lok aðalmeðferðar sem og um aukinn rétt brotaþola til upplýsinga um gæsluvarðhald, áfrýjun og tilhögun afplánunar dómfellda.“
Hafa kallað eftir því að þolendur fái aðild að málum sínum
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að með nýju frumvarpi hafi orðið talsverðar breytingar á réttarstöðu brotaþola, líkt og áður segir. Hún bendir á að ekki sé búið að tryggja öll þau réttindi þolenda kynferðisofbeldis sem samtökin hafa kallað eftir, til að mynda að þolendur fái aðild að málum sínum.
„Það hefur auðvitað skapast talsverð umræða um það að þolendur ofbeldis eigi að fá aðild að málum sínum í réttarkerfinu en það er almennt ekki þannig í sakamálum. Venjulega er þetta ríkið gegn brotamanninum. Í ljósi þess að ofbeldismál eru yfirleitt mjög sérstök mál, yfirleitt stendur brotamaður brotaþola nærri og brotaþoli hefur mjög ríka hagsmuni af því að rannsóknin fari vel fram. Því hefur orðið þessi krafa um að brotaþoli fái aðild. Það gerðist ekki í þessari lagasetningu,“ segir Steinunn.
Lögin tryggja bættan aðgang að upplýsingum
Með nýju lögunum sé ríkið þó að reyna að tryggja brotaþola sambærileg réttindi og fáist með aðild að máli, upp að vissu marki. „Þarna fær brotaþoli réttindi í gegnum réttargæslumanninn sinn til þess að fá nánari upplýsingar um mál á rannsóknarstigi og það finnst okkur mjög mikilvægt,“ segir Steinunn og bætir því við að í sumum málum sem felld hafi verið niður hefðu brotaþolar getað lagt fram frekari sönnunargögn ef þeir hefðu haft sama aðgang að upplýsingum og nýju lögin tryggja.
Brotaþoli fær nú rétt til þess að bæði sitja í dómsal og að leggja fram spurningar í gegnum réttargæslumann en áður var það háð samþykki sakbornings hvort þolandi fengi að að sitja í dómsal. Þetta breytir miklu að sögn Steinunnar: „Hingað til hefur þessi réttargæslumaður eingöngu verið þarna til þess að flytja skaðabótakröfu brotaþola. Það hefur verið hans eina hlutverk. Núna fær brotaþoli rödd inn í sakamálið með þessu. Þannig ef að brotaþolinn upplifir einhvern veginn að saksóknarinn sé ekki að spyrja réttu spurninganna eða sé ekki að fá allt fram þá getur brotaþolinn lagt fram spurningar í gegnum sinn réttargæslumann.“
Jákvæðar breytingar en langur biðtími „kerfislægur vandi“
Spurð að því hvort að þolendur muni eiga auðveldara með að sækja rétt sinn í kjölfar lagabreytinganna segir Steinunn að þær auki ef til vill tiltrú brotaþola á kerfinu að einhverju leyti, sérstaklega heimildin sem tryggir betri aðgang þolenda að upplýsingum um mál sín. „Það sem brotaþolar hafa verið að upplifa er að þeir fara og leggja fram kæru og svo upplifa þeir það að allt vald sé hrifsað af þeim í kjölfarið. Þá sé þetta ekki lengur þeirra mál, heldur mál ríkisvaldsins gegn sakborningi og það eina sem þau eiga að gera er að koma með einhvern framburð. Það er ömurleg upplifun í kjölfar þess að hafa verið beitt ofbeldi, þar sem allt vald er tekið af manni, þá vill maður einmitt fá einhverja valdeflingu út úr því að fara og kæra brot. Það hefur ekki verið staðan hingað til.“
Steinunn segir að breytingarnar, sem séu af hinu góða, muni þegar upp er staðið að öllum líkindum ekki hafa mikil áhrif á upplifun brotaþola af kerfinu á meðan málsmeðferðartíminn er eins langur og raun ber vitni. „Á meðan staðan er enn þá sú að þú ferð og kærir nauðgun og sakborningur er kallaður inn í skýrslutöku sex til níu mánuðum seinna þá breytir það engu hvort þú fáir einhverjar upplýsingar á þessu tímabili. Þessi biðtími er óásættanlegur. Þetta eru jákvæðar breytingar en það er bara annar kerfislægur vandi sem þarf að laga til þess að gera þetta kerfi boðlegt fyrir þolendur,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta.