Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt að niðurgreiðslum hins opinbera vegna sýnatöku hjá einkaaðilum, sem er ætlað að greina hvort fólk sé smitað af COVID-19, verði hætt þann 1. apríl næstkomandi.
Einkennasýnatöku verður áfram sinnt hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum án gjaldtöku og áfram verður rukkað sjö þúsund krónur fyrir svokallað PCR próf fyrir einkennalausa einstaklinga sem þurfa vottorð til ferðalaga.
Reglugerð um endurgreiðslur kostnaðar vegna sýnatöku til greiningar á COVID-19 tók gildi 16. september í fyrra og fól í sér að einkaaðilar sem önnuðust hraðpróf til greiningar á COVID-19, t.d. vegna hraðprófsviðburða eða útgáfu vottorða fyrir ferðamenn, gátu boðið þá þjónustu endurgjaldslaust. Samkvæmt henni fengi einkaaðilar fjögur þúsund krónur úr ríkissjóði fyrir hvert hraðpróf sem þeir framkvæmdu.
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember í fyrra að þrjú einkafyrirtæki uppfylltu þá skilyrði reglugerðar heilbrigðisráðherra til greiðslna frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir töku hraðprófa.
Þar kom einnig fram að samantekinn kostnaður ríkissjóðs vegna sýnatökupinna hafi verið 369 krónur fyrir hvert PCR-próf að meðaltali og að kostnaður fyrir hvert hraðpróf hafi verið 1.685 krónur að meðaltali. Þá er heildarkostnaður hingað til vegna sýnatökupinna 615 milljónir króna fyrir PCR-próf og 389 milljónir króna fyrir hraðpróf. Um er að ræða próf sem gerð voru á heilsugæslum, heilbrigðisstofnunum og af einkaaðilum.