Íslensk stjórnvöld munu ekki samþykkja að fá tíu ára skuldabréf, útgefið af Íslandsbanka, upp á 37 milljarða króna sem hluta af þeim greiðslu til að mæta stöðugleikaskilyrðum sem þau settu í áætlun um losun hafta. Stærstu kröfuhafar Glitnis höfðu samið um að greiða upphæðina í reiðufé en Íslandsbanka hugnaðist það ekki og því var lagt til að gefið yrði út skuldabréf. Nú haga íslensk stjórnvöld sagt nei við þeirri ráðagerð. Frá þessu er greint í DV í dag.
Í kjölfar þess að stærstu kröfuhafar Glitnis náðu samkomulagi við íslensk stjórnvöld um að greiða þeim stöðugleikaframlag til að koma í veg fyrir álagningu stöðugleikaskatts gerðu Íslandsbanki og Glitnir, stærsti eigandi bankans, með sér rammasamkomulag um samstarf svo að slitameðferð Glitnis nái fram að ganga. Í tilkynningu til Kauphallar voru listaðar þær aðgerðir sem ráðist verður í. Þær voru að mestu leyti sömu tillögur og áður höfðu verið gerðar opinberar, það eru tillögurnar sem kröfuhafar Glitnis lögðu fyrir stýrniefnd stjórnvalda um losun fjármagnshafta í júní síðastliðnum. Í þeim tillögum var sérstaklega talað um aðgerðir sem ráðist yrði í fyrir sölu Íslandsbanka til annarra aðila.
Rammasamkomulagið kvað auk þess meðal annars á um að sala á Íslandsbanka til íslenskra fjárfesta verður takmörkuð. Hvorki Íslandsbanki né slitastjórn Glitnis vildu tjá sig frekar um þetta atriði þegar Kjarninn leitaði eftir því á sínum tíma.
Þá átti Íslandsbanki að gefa út skuldabréf til Glitnis undir svokölluðum „MTN útgáfuramma“ að andvirði 37 milljarðar króna sem koma átti stað erlendra innlána Glitnis hjá íslenskum bönkum. Þaðer þessi tillaga sem íslensk stjórnvöld hafa nú hafnað. Samkvæmt DV var ekki haft samráð við helstu ráðgjafa stjórnvalda um losun hafta þegar þessi tillaga var lögð fram.
Þar segir enn fremur að ríkið vilji ekki taka á sig áhættu vegna skuldabréfsins þar sem enginn virkur markaður sé fyrir skuldabréf af þessum toga, gefin út af íslenskum banka til tíu ára og í íslenskum krónum, og því óljóst hvort ríkið geti selt það.