Að minnsta kosti tuttugu og níu ríki heims tóku í fyrra ákvörðun um að loka á eða takmarka netaðgang einhverra borgara sinna, í alls 155 skrásettum tilvikum. Indland trónir á toppnum eins og mörg fyrri ár, en ríkið greip til þess ráðs að hefta aðgang borgara sinna að internetinu að minnsta kosti 109 sinnum árið 2020.
Þetta kemur fram nýútgefinni í skýrslu samtakanna Access Now, sem berjast gegn hverskyns takmörkunum á netaðgangi fólks um heim allan. Internet-lokanir eru skilgreindar sem „viljandi truflanir á netinu eða stafrænum samskiptum [...] til þess að stýra flæði upplýsinga“ og langoftast framkvæmdar af stjórnvöldum.
Sem áður segir trónir Indland á toppnum á þessum vafasama lista. Takmarkanir á notkun netsins hafa verið viðvarandi í Jammu og Kasmír-héraði, nyrst í landinu við landamærin að Pakistan, um lengri tíma. Á tveggja vikna fresti allt árið 2020 voru þar gefnar út nýjar tilskipanir um heftan netaðgang, þrátt fyrir viðvörunarorð og mótmæli lækna, blaðamannasamtaka og íbúa, sem sögðu netlokanir stjórnvalda auka enn á vandan sem heimsfaraldur COVID-19 hefði í för með sér.
Blaðamenn og grasrótarhópar í Indlandi hafa barist fyrir því að stjórnvöld í Jammu og Kasmír opinberi á hvaða grundvelli netlokanirnar séu gerðar og hæstiréttur landsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld þurfi að birta rökstuðning sinn fyrir ákvörðununum.
Samkvæmt skýrslu Access Now er algengast að indversk stjórnvöld réttlæti heftingu netaðgangs með því að um „varúðarráðstafanir“ sé að ræða, eða til þess að koma í veg fyrir að „andþjóðfélagsleg öfl deili fölskum upplýsingum á samfélagsmiðlum,“ en stjórnmálaástandið á svæðinu hefur verið eldfimt undanfarin misseri, eftir að indverska stjórnin ákvað að svipta landsvæðið takmörkuðu sjálfstjórnarvaldi sínu.
Netið enn nauðsynlegra í heimsfaraldri
Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni frá Access Now voru hundruð milljóna manna án internetaðgangs að öllu leyti eða hluta vegna aðgerða yfirvalda á síðasta ári, í heimsfaraldrinum miðjum. Samtökin segja neikvæð áhrif netlokana hafa aukist í faraldrinum.
„Þeir sem hafa haft aðgang að netinu í faraldrinum hafa treyst á það til þess að fá nýjustu upplýsingar, sem geta jafnvel bjargað mannslífum. Þau sem eru nettengd eru ekki bara í betri stöðu til að verja sig og vera örugg, heldur hafa flestir notað netið til að vinna, halda áfram með nám sitt, kenna börnum sínum að heiman, eiga samskipti við ástvini, leita sér upplýsinga um heilbrigðisþjónustu, leita sér að atvinnu og svo framvegis. Þau sem hafa ekki netaðgang eða eru vísvitandi svipt honum hafa ekki þessa möguleika og lifa í ótta,“ segir í skýrslunni.
121 dagur samskiptatruflana í Belarús
Belarús, Hvíta-Rússland, er eina ríki Evrópu sem í fyrra takmarkaði netaðgang þegna sinna. Það var gert í kringum umdeildar forsetakosningar sem leiddu til fjöldamótmæla á götum úti. Á kosningadag, 9. ágúst, var fyrst lokað á YouTube og síðar á WhatsApp, Telegram og fleiri samskiptaforrit.
Eftir að Alexander Lúkasjenkó forseti lýsti yfir enn einum kosningasigrinum þusti fólk út á götur til mótmæla. Þá var alfarið lokað á netaðgang almennings í heila þrjá daga og raunar símkerfið að mestu leyti líka. Farsímakerfið og aðgangur að netinu lá síðan niðri að mestu í 121 dag til viðbótar.
Það var ekki fyrr en 6. desember sem farsímakerfið starfaði á ný nokkuð eðlilega, en forrit á borð við Telegram og VPN-þjónustur eru enn blokkaðar.
Myrkraverk í skugga netleysis
Aðgengi að netinu er að mati Access Now bæði mannréttinda- og öryggismál fyrir fólk, enda eigi stjórnvöld hægara með að komast upp með voðaverk þegar búið er að slíta á möguleika fólks til að hafa tengsl við umheiminn.