Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur fengið vilyrði um skattkerfisbreytingar, sem gagnist mest hinum tekjulægstu, frá ríkisstjórninni. Vilyrðið á að liðka fyrir gerð kjarasamninga en engar tímasetningar mögulegra skattalækkanna eru nefndar í skjalinu sem inniheldur vilyrðið. Starfsgreinasambandið hefur ekki tekið afstöðu til þess. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.
Samtök atvinnulífsins (SA) gerðu Starfsgreinasambandinu tilboð í liðinni viku sem þau segja að feli í sér 23,5 prósent launahækkun dagvinnulauna á þriggja ára samningstíma. Því tilboði var hafnað.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hafnaði þessu í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær. Hún sagði þar að Samtök atvinnulífsins hafi lýst því yfir við fyrirtæki innan þeirra að verkalýðshreyfingin hafi hafnað tilboðinu áður en Starfsgreinasambandið fékk að „sjá nokkurt tilboð“.
Í yfirlýsingu Drífu kemur fram að almennar launahækkanir sem Samtök atvinnulífsins buðu í tilboðinu hafi verið 14 prósent á þremur árum, að meðaltali 30.000 króna hækkun taxta á þremur árum. Aðrar launahækkanir í tilboðinu voru tilfærslur sem verkafólk greiddi sjálft með lækkun yfirvinnuprósentu og lengingu dagvinnurammans. Starfsgreinasambandið sé ekki til viðræðu um slíkt nema það sé tryggt að hægt sé að lifa á dagsvinnulaunum. Svo hafi ekki verið í tilboðinu.
Rætt um sáttartilboðið í gær
Í Morgunblaðinu segir að rætt hafi verið um tilboðið á sáttarfundi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins í gær. Þar segir að tilboðið feli í sér að laun hækki um sex prósent á þessu ári, 4,5 prósent á næsta ári og þrjú prósent á árinu 2017. Yfirvinna á að lækka úr 80 prósent í 50 prósent en á móti hækki laun um 2 prósent. „Þá yrði dagvinnutíminn lengdur og yrði frá kl. 6 á morgnana til 19 á kvöldin. SGS hefur metið tilboðið til 28 þúsund kr. hækkunar lægstu launa á 3 árum,“ segir í frétt blaðsins.
Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins sem send var út í gær segir að samtökin hafi einnig boðið hækkun á lágmarkstekjutryggingu fyrir fulla dagvinnu. Hún yrði 280 þúsund krónur á mánuði í lok samningstímans. Aðalkrafa Starfsgeinasambandsins í kjaraviðræðunum er að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund krónur í þriggja ára samningi. Morgunblaðið segist hafa upplýsingar um að útfærslan sem Samtök atvinnulífsins eru að bjóða jafngildi því að lágmarkslaun verði 300 þúsund krónur á mánuði þegar búið er að taka tillit til skattalækkanna sem ráðist verði í samhliða.
Drífa opinberaði það í yfirlýsingu sinni í gær að öðrum verkalýðsfélögum hafi verið kynnt sambærilegt tilboð en að þau hafi hafnað því.
Ekki lausn að ríkisstjórnin komi með útspil
Morgunblaðið ræðir einnig við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, um mögulega aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjaraviðræðum, meðal annars með loforð um skattalækkanir. Hann segir að öll spjót standi að ríkistjórninni og að hann skilji það vel. „En ég sé enga lausn í því að ríkisstjórnin komi með eitthvert útspil. Ef ríkisstjórnin á að geta leyst úr þessari deilu hlýtur það að snúast um þau atriði sem aðildarfélög Alþýðusambandsins telja mikilvægt að leysa. Við erum ekki að kalla eftir einhverjum óskapakka ríkisstjórnarinnar heldur værum þá að kalla eftir einhverju sem við teljum skipta máli til lausnar kjaradeilum. Ríkisstjórnin getur ekki haft frumkvæði að því. Við hljótum að gera það sjálf en fyrst þurfum við að ná saman um hvort við viljum fara þá leið. Núna er einfaldlega verið að semja við atvinnulífið um launahækkanir.“