Evrópusamtök blaðamanna (EFJ) óttast að ritskoðun og bannfæring rússneskra ríkisfjölmiðla innan Evrópusambandsins gæti verið ógn við tjáningarfrelsið í álfunni og að aðgerðum í þá átt að banna rússneska fjölmiðla eins og RT og Sputnik í ríkjum Evrópusambandsins gæti verið svarað með samsvarandi banni á evrópska fjölmiðla í Rússlandi.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB tilkynnti á sunnudaginn að Evrópusambandið ætlaði sér að banna fjölmiðlamaskínu rússneskra yfirvalda í Evrópu og sagði að RT og Sputnik og tengdir miðlar myndu ekki lengur fá að „spúa lygum til að réttlæta stríð Pútíns“ í Úkraínu. Hún sagði framkvæmdastjórnina vera að þróa tól til þess að banna „eitrandi og skaðlega upplýsingafölsun“ þessara miðla í Evrópu.
Samkvæmt yfirlýsingu á vef Evrópusamtaka blaðamanna var Ricardo Gutiérrez framkvæmdastjóri EFJ undrandi á þessari yfirlýsingu von der Leyen. „Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að fjölmiðlar falla ekki undir valdsvið Evrópusambandsins. Frú von der Leyen hefur tilkynnt um aðgerðir sem hún getur ekki gripið til. ESB hefur engan rétt til að veita eða afturkalla útsendingarleyfi. Þetta er algjörlega á forræði aðildarríkjanna,“ er haft eftir Gutiérrez á vef EFJ.
Betra að benda á áróðurinn en að banna hann
Gutiérrez sagði einnig að hann teldi algjöra bannfæringu fjölmiðlaveitna ekki bestu leiðina til þess að takast á við upplýsingafölsun og áróður.
„Þessir ritskoðunartilburðir geta haft öfugvirkandi áhrif á þá borgara sem fylgjast með bönnuðu miðlunum. Að okkar mati er alltaf betra að takast á við upplýsingafölsun áróðurmiðla eða meintra áróðursmiðla með því að fletta ofan af staðreyndavillum þeirra eða slæmri blaðamennsku, með því að sýna fram á skort á fjárhagslegu eða rekstrarlegu sjálfstæði þeirra eða með því að benda á tryggð þeirra við hagsmuni ríkisstjórna og skeytingarleysi þeirra gagnvart almannahagsmunum,“ er haft eftir Gutiérrez, sem telur áskorun lýðræðisríkja vera þá að berjast gegn upplýsingafölsun en standa á sama tíma með tjáningarfrelsinu.
Í umfjöllun á vef EFJ er bent á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á í dómum sínum að það að banna starfsemi fjölmiðlafyrirtækis sé alvarleg gjörð, sem byggja þurfi á að sterkum lagagrundvelli.
EFJ telur að í stað bannfæringar og ritskoðunar ætti Evrópusambandið að horfa til annarra lausna eins og aukins stuðnings við sjálfstæða fjölmiðlun, aðgerða til þess að auka sjálfstæði ritstjórna, aðgerða sem styrkja sjálfsmynd og stöðu blaða- og fréttamanna í samfélaginu, þess að veita faglegt aðhald með sjálfstæðum fjölmiðlanefndum, aðgerða sem stuðla að fjölræði á fjölmiðlamörkuðum, því að auka fjölmiðlalæsi almennings og aðgerða sem miða að auknu gagnsæi um störf valdafólks.
„Hættan við ritskoðunarstefnuna er einnig sú að henni verði svarað í sömu mynt, eins og við höfum séð með bannfæringu DW í Rússlandi í kjölfarið á því að RT var bannað í Þýskalandi. Niðurstaðan af þessum átökum hefur orðið sú að fjölmiðlaumhverfið í Rússlandi er orðið fátækara. Borgarar þar hafa misst réttinn til þess að nálgast upplýsingar í gegnum útsendingar DW. Þetta er miður,“ er haft eftir Gutiérrez.