Umræða um rafbíla og orkuskipti í vegasamgöngum er fyrirferðamikil í kringum Cop26-ráðstefnuna sem fram fer í Glasgow þessa dagana. Eðlilega, enda er losun frá vegasamgöngum stór og raunar enn vaxandi þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Á móti kemur að lítið fer á ráðstefnunni fyrir umræðu um aðrar leiðir til þess að draga úr losun frá vegasamgöngum, sem í reynd eru bæði hagkvæmari, fljótlegri og umhverfisvænni en það einungis að skipta úr bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti yfir í bíla sem keyra á rafmagni.
Þetta hefur verið gagnrýnt af sérfræðingum í skipulags- og samgöngumálum og talsmönnum fyrir því að hjólreiðar og aðrir virkir ferðamátar, auk almenningssamgangna, fái aukinn sess í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Breski blaðamaðurinn Carlton Reid, sem skrifar um samgöngumál fyrir Forbes og fleiri miðla, segir í dálki sínum á vef Forbes að á þeim degi sem bresku fundarhaldararnir tileinki samgöngum á Cop26, miðvikudeginum 10. nóvember, sé ekkert minnst á hjólreiðar, göngu né lestarsamgöngur í dagskránni.
Sjálfur er hann staddur í Glasgow og hefur þar furðað sig á því að virkir ferðamátar fá nær ekkert pláss á ráðstefnunni – á meðan að í aðalsýningarsalnum á ráðstefnunni sé meira að segja rafmagnsdrifinn kappakstursbíll.
Cycling inexplicably missing from #COP26 pic.twitter.com/0JDmIstGOA
— Carlton Reid (@carltonreid) November 1, 2021
Í grein sinni vísar Reid meðal annars til nýlegrar rannsóknar frá rannsakendum við Oxford-háskóla, sem komast að þeirri niðurstöðu að það ætti að verða hornsteinn sjálfbærrar stefnumótunar að fjárfesta í og stuðla að virkum ferðamátum innan borga heims.
Áratugir í besta falli þar til brunabílarnir hverfa
Henk Swarttouw, formaður regnhlífarsamtaka evrópskra samtaka hjólreiðamanna, minnti á það í bréfi til Financial Times á dögunum að samkvæmt björtustu sviðsmyndum muni það taka að minnsta kosti 20 ár að koma bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti úr umferð – og að orkuskiptin muni jafnvel taka enn lengri tíma hvað flutningabíla varðar. Bílasala á heimsvísu sé enn vaxandi og einungis um fimm prósent þeirra bíla sem seljast séu hreinir rafbílar.
Swarttouw bendir á að það sé til fljótleg og tiltölulega einföld leið til þess að keyra af stað samdrátt í losun frá vegasamgöngum – að útbúa aðstæður sem henta vel til þess að fólk velji sér að hjóla eða ganga. Hann segir einnig að í Evrópu sé helmingur allra ferða sem farnar eru á bílum innan við fimm kílómetrar og þriðjungur innan við þrír kílómetrar.
„Flest fólk ætti að geta farið þessar vegalengdir á hjóli eða, fyrir allra stystu ferðirnar, einfaldlega gangandi. Og núna nýlega hefur hröð innkoma rafhjólsins gert hjólreiðar að aðlaðandi kosti fyrir ferðir sem eru jafnvel eilítið lengri,“ skrifar Henk Swarttouw og bendir síðan á að það sem helst standi því fyrir þrifum að fleiri kjósi að hjóla og ganga styttri ferðir innan borga séu öruggir innviðir.
Skora á ríki heims um að heita því að fjölga hjólandi
Í sameiginlegri áskorun 64 evrópskra samtaka hjólreiðamanna, þeirra á meðal Landssamtaka hjólreiðamanna hér á landi, til þeirra ríkja sem sitja ráðstefnuna í Glasgow þessa dagana, segir að heimurinn þurfi mun meiri hjólreiðar til að vega gegn loftslagsbreytingum. Skorað er á ríkisstjórnir og þjóðarleiðtoga að heita því að fjölga verulega fjölda þeirra þeirra sem hjóla í heimalöndum sínum.
„Ríkisstjórnir geta gert þetta með því að byggja meira af hágæða hjólreiðainnviðum, samþætta hjólreiðar við almenningssamgöngur, bæta öryggi á vegum og koma til leiðar stefnum sem hvetja fólk og fyrirtæki til þess að skipta út bílferðum fyrir hjólreiðar og aðra ferðamáta eins og göngu og almenningssamgöngur,“ segir auk annars í áskoruninni.