Netverslun Íslendinga hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum. Í fyrra versluðu 85 prósent Íslendinga á netinu, samanborið við 75 prósent árið 2018. Ef litið er tíu ár aftur í tímann nemur aukningin 30 prósentum.
Netverslun Íslendinga er vel yfir meðaltali annarra Evrópuríkja en samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat er Ísland í sjötta sæti álfunnar hvað varðar netverslun. Ef kauphegðun íbúa allra Evrópuríkja er skoðuð keyptu 67 prósent Evrópubúa, á aldrinum 16-74 ára, vörur eða þjónustu á netinu á síðasta ári.
Fleiri breyta hegðun sinni í umhverfisskyni en föt vinsælust í netverslun
Vitundarvakning hefur orðið í umhverfismálum á undanförnum árum. Samkvæmt umhverfiskönnun Gallup hafa 82,5 prósent Íslendinga breytt hegðun sinni síðastliðin fimm ár til að þess að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar. Það er tæplega 20 prósenta aukning á tveimur árum, þegar um 63 prósent svarenda sögðust hafa breytt hegðun sinni mikið eða nokkuð.
Dregið hefur úr fatasóun hér á landi síðustu fimm ár, eftir öran vöxt fimm árin þar á undan, en á sama tíma sækir netverslun í sig veðrið. Föt, skór og fylgihlutir er vinsælasti vöruflokkurinn, jafnt á Íslandi sem og í Evrópu.
Líkt og Kjarninn fjallaði nýverið um verða föt, skór og fylgihlutir oftast fyrir valinu þegar Íslendingar versla á netinu, eða í 14 prósent tilvika. Konur versla meira af fötum, skóm og fylgihlutum en karlar. Af kaupum á netinu samanstanda 19 prósent kaup kvenna af fötum, skóm og fylgihlutum en átta prósent kaup karla.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr Netverslunarpúlsi Prósents. Síðastliðin tvö ár hefur Prósent, í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu og Rannsóknarsetur verslunarinnar, tekið saman ýmsar upplýsingar um kauphegðun Íslendinga á netinu. Gögnin uppfærast í rauntíma og byggja á 200 svörum Íslendinga, 18 ára og eldri, sem valdir eru af handahófi. Gögnum er safnað í hverjum mánuði og ná aftur til mars 2021.
Boozt trónir á toppnum
61 prósent kaupa á fötum, skóm og fylgihlutum Íslendinga á netinu fara í gegnum erlendar netverslanir og þar trónir skandinavíska tísku- og lífsstílsverslunin Boozt á toppnum með 38 prósent hlutdeild. Þar á eftir kemur breska tískufyrirtækið Asos með 13 prósent hlutdeild og loks kínverski hraðtískurisinn Shein með átta prósent hlutdeild.
38 prósent af kaupum Íslendinga á fötum, skóm og fylgihlutum á netinu kemur frá Skandinavíu, það er í gegnum Boozt. 29 prósent kemur frá Bretlandi, 16 prósent frá Banaríkjunum, 11 prósent frá Kína og sjö prósent frá öðrum löndum.
Ellefu prósent ætla að versla meira á netinu næstu 12 mánuði
Samkvæmt Netverslunarpúlsinum gera ellefu prósent Íslendinga ráð fyrir að versla meira á netinu næstu 12 mánuði og tvö prósent miklu meira. 57 prósent sjá ekki fram á að breyta hegðun sinni á næstunni og ætla að versla jafnmikið.
Sjö prósent telja að þeir ætli að versla talsvert minna en aðeins fjögur prósent telja sig ætla að versla miklu minna á netinu næstu 12 mánuði. 19 prósent eru óviss um hvort kauphegðun þeirra á netinu muni breytast næstu mánuði. En ef fram fer sem horfir mun netverslun Íslendinga væntanlega halda áfram að aukast.