Alls 34 prósent heimila nota allt ráðstöfunarfé sitt til að ná endum saman í hverjum mánuði, eru að ganga á sparnað eða að safna skuldum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents sem Fréttablaðið greinir frá í dag.
Þar segir að tæpur fjórðungur aðspurðra, 24 prósent, nái endum saman með naumindum en tíu prósent séu annað hvort að ganga á sparnað eða safna skuldum. Alls 49 prósent aðspurðra ná að leggja eitthvað fyrir um hver mánaðamót.
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að staðan sé áberandi verst á Reykjanesi, þar sem 57 prósent aðspurðra leggja ekkert fyrir, ganga á sparnað eða safna skuldum.
Eðli málsins samkvæmt er staðan verst hjá hinum tekjulægstu, en hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði eiga tæplega átta af hverjum tíu ekki neitt eftir í veskinu í lok mánaðar. Á sama tíma geta níu af hverjum tíu í efsta tekjuhópnum, þeim sem eru með heimilistekjur yfir 1,5 milljónir króna á mánuði, lagt fyrir og helmingur þess hóps á talsverðan afgang.
Hærri vextir bíta fast
Yfirstandandi dýrtíð virðist samkvæmt þessu vera farin að bíta suma hópa samfélagsins ansi fast. Verðbólga mælist enda 9,9 prósent og greiningaraðilar spá því að hún eigi enn eftir að hækka. Stærsti einstaki þátturinn í hækkandi verðbólgu hefur verið gríðarleg hækkun á húsnæðisverði.
Hagstofan greindi frá því fyrr á þessu ári að hlutfall þeirra heimila sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað (greiddu meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í að halda þaki yfir höfuðið) hafi verið 12,8 prósent í fyrra og það hafi aukist milli ára.
Í ljósi þess að stýrivextir hafa hækkað um 2,75 prósentustig síðan um áramót án þess að laun hafi hækkað mikið liggur fyrir að þetta hlutfall mun hækka umtalsvert á árinu 2022.
Allar nauðsynjavörur hækkað í verði
Á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð, og vextir voru í sögulegum lægðum, þrefölduðust óverðtryggð húsnæðislán viðskiptabankanna, fóru úr 370 milljörðum króna í 1.090 milljarða króna. Greiðslubyrði þessa hóps hefur hækkað gríðarlega samhliða vaxtahækkunum.
Í nýlegri hagsjá Landsbankans var tekið dæmi af 40 milljóna króna láni á lægstu óverðtryggðu vöxtum.
Vaxtabyrði þeirra hefur hækkað um 98 þúsund krónur frá því í maí í fyrra. Landsbankinn býst við því að vextir haldi áfram að hækka og að vaxtabyrðin muni aukast um 25 þúsund krónur í viðbót á þessu ári. Þá hefur hún farið úr 110 þúsund krónum á mánuði i 233 þúsund krónur á mánuði.
Ofan á þessar hækkanir á afborgunum af húsnæðislánum hefur eldsneytisverð hækkað mikið, eða um 72 prósent á tveimur árum. Í nýjustu bensínvakt Kjarnans kom fram að sá sem greiddi 15 þúsund krónur á mánuði í bensínkostnað í maí 2020 þurfti um miðjan síðasta mánuð að punga út rúmlega 137 þúsund krónum til viðbótar á ári til að kaupa sama magn af eldsneyti. Þá eru ótaldar miklar hækkanir á mat og drykk, innfluttum nauðsynjavörum eins og fatnaði og ferðalögum.