Rússar skutu í dag eldflaugum á skotmörk í Sýrlandi af herskipum sem eru staðsett í Kaspíahafi. Þetta er í fyrsta sinn sem það er gert, en samhliða loftárásunum hófu herdeildir sýrlenska stjórnarhersins mikla sókn í mið-Sýrlandi með hjálp loftárása rússneskra herþota.
Þetta virðist vera í fyrsta sinn sem samhæfð árás er gerð af rússnesku og sýrlensku hervaldi, eftir að rússneski herinn hóf loftárásir í Sýrlandi 30. september. Þetta er líka í fyrsta sinn sem eldflaugum er skotið af herskipum, en ljóst er að eldflaugarnar hafa þurft að fljúga langa vegalengd, yfir Íran og Írak, til að ná til Sýrlands.
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að fjögur herskip hafi skotið 26 eldflaugum á skotmörk sem tengist Íslamska ríkinu. Ráðuneytið birti myndband af loftárásunum á vefsíðu sinni og á youtube, eins og sjá má hér að neðan.
https://youtu.be/iMasnaAf_H4
Rússnesk stjórnvöld segjast hafa hitt öll skotmörk sín, sem hafi verið í Raqqah, Idlib og Aleppo, og þau segja að engir óbreyttir borgarar hafi fallið í árásunum. Óbreyttir borgarar og uppreisnarmenn sem ekki tengjast Íslamska ríkinu hafa þó orðið fyrir einhverjum loftárásanna hingað til.
Sýrlenska mannréttindavaktin segir að nú eigi sér stað áköfustu bardagar í marga mánuði í Hama og Idlib í kjölfar loftárása Rússa á svæðunum. Að minnsta kosti 37 árásir hafi verið gerðar í dag.