Eitt áhugaverðasta, í það minnsta skoplegasta, verkefnið sem nú safnar sér fjármagni á vefsíðu Karolina Fund, má rekja til fjöllistahópsins Per: Segulsvið, sem safnar sér fyrir útgáfu bókarinnar: „Smiður finnur lúður.“
Fjöllistahópurinn er hugarfóstur Ólafs Josephssonar tónlistarmanns, Árna Þórs Árnasonar myndlistarmanns, og Sveins Magnússonar skálds, en í dag hefur hópurinn tryggt sér 67 prósent fjármögnunarinnar, en hætt verður að taka við framlögum eftir fimmtán daga. Samkvæmt lauslegri könnun Kjarnans hefur Per: Segulsvið áður gefið út tvær hljómplötur; Kysstu mig þungi Spánverji og Tónlist fyrir hana.
Þríeykið stefnir nú á útgáfu sinnar fyrstu bókar, en hún var gefin út rafrænt á vefsíðu fjöllistahópsins síðsumars árið 2013 og hefur verið aðgengileg þar síðan án endurgjalds. „Skortur á fjármagni hefur hinsvegar aftrað því að bókin hafi verið gefin út í físísku formatti - líkt og hún á skilið. Nú stendur það til bóta. Per: Segulsvið vonast til þess að með þinni aðstoð kæri lesandi, verði hægt að frelsa smiðinn úr rafrænum fjötrum sínum og senda hana í allri sinni dýrð út í kosmósið - 24 síðna bók í litríkuprenti,“ segir á síðu fjöllistahópsins á vefsíðu Karolina Fund.
Bók Per: Segulsviðs kemur til með líta svona út, ef fjöllistahópurinn nær að tryggja sér nægjanlegt fjármagn.
„Ekki hengja bakara... frelsaðu smið“
Fjöllistahópurinn hefur til þessa getið sér góðs orðs fyrir litskrúðugt orðalag, og frumlega kímnigáfu. Bókin er sögð alhliða tækifærisbók fyrir fullorðna sem og fullorðinsbók fyrir börn. „Hún er trappa málarans, sleif ostagerðarmannsins og grifflur dansarans. Hún er í senn ætluð miðaldra gröfumönnum sem rauðhærðum sveitadrengjum með eyrnarlokka.“
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bók Per: Segulsviðs um smið sem finnur lúður á förnum vegi. Hún er heiðarlega myndskreytt og hlaðin nokkru gamni, eins og fjöllistahópurinn orðar það. „Átján húðlæknum var fórnað við gerð bókarinnar og vefhönnuður aðlaður til mótvægis. Slíkt má ekki vanta þegar verk eins og þetta er annars vegar. Almættið þarf sitt. Allt leitar jafnvægis … eða eins og Per: Segulsvið gjarnan segir, „Hausi gefur, hausi fær“. Hjálpaðu veröldinni að leita jafnvægis. Styrktu Per: Segulsvið við að prenta bók um smið. Ekki hengja bakara … frelsaðu smið – og tryggðu þér eintak af bókinni með laufléttri sveiflu krítarkortsins.“
Þeir sem láta fé af hendi rakna geta skráð nafn sitt á spjöld sögunnar
Þeir sem styrkja útgáfu bókarinnar eiga möguleika á að fá höfuðpersónu hennar nefnda eftir sér, að því er fram kemur í fréttatilkynningu fjöllistahópsins. „Einn lukkulegur velunnari mun í lok söfnunarinnar verða dreginn úr hópnum, og mun aðalsöguhetjan, smiðurinn viðkunnalegi, vera skírður nafni viðkomandi. Styrktu Per: Segulsvið við að prenta bók um smið - og þú gætir bókstaflega skráð nafn þitt á spjöld sögunnar.“
Myndband fjöllistahópsins á Karolina Fund hefur vakið athygli, enda óhefðbundið í öllum mögulegum skilningi þess orðs.