Umboðsmenn E-lista Reykjavíkur, bestu borgarinnar, sem býður fram í borgarstjórnarkosningunum í næsta mánuði, gerir athugasemd við umfjöllun Ríkisútvarpsins um afhendingu á framboðsgögnum í borgarráðssal Ráðhúss Reykjavíkur í kvöldfréttum sjónvarps í gærkvöldi, 7. apríl.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá listanum, sem hefur farið þess á leit að bæði Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd taki málið til skoðunar.
Um var að ræða umfjöllun Ríkisútvarpsins um skil framboðsgagna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Skilafrestur var í hádeginu í gær og sýndi kvöldfréttatími frá lítilsháttar vandræðum sem umboðsmenn E-listans áttu við að hafa uppi á ákveðnum framboðsgögnum innan um aukagögn í stórum blaðabunka. Var meðal annars sýnt frá símtölum milli forsvarsmanna flokksins og tók sýningin frá vandræðum þessum í rúmlega tvær mínútur af kvöldfréttatímanum.
Í tilkynningu listans segir að umfjölluninni virðist ætlað að draga dár að framboði listans og umboðsmönnum þess og hafa beri í huga að framboð, og sérstaklega ný framboð, séu viðkvæm í þeirri stuttu og erfiðu vegferð sem fram undan er til kosninga 14. maí.
„Það er mat framboðsins að umfjöllun RUV sé til þess fallin að brengla lýðræðislegt ferli strax í upphafi kosningabaráttunnar.“
Í svari við fyrirspurn Kjarnans vegna málsins sagði Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, að fréttamaður þess hafi fengið leyfi þeirra sem voru á staðnum til að nota efnið, bæði fulltrúa kjörstjórnar og framboðsins. Að því sögðu væri þeim frjálst að kvarta og kvörtunin færi þá sína leið í kerfinu. Spurður um lengd klippunnar sagði Heiðar Örn að hún hafi sagt sögu og þess vegna fengið að vera svo löng.