Gengið var frá sölunni á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor frá Arion banka til fjartæknifyrirtækisins Rapyd 1. júlí síðastliðinn og var kaupverðið 100 milljónir dala, um 12,4 milljarðar króna. Bókfærður hagnaður Arion banka vegna sölunnar er áætlaður um 3,5 milljarðar króna.
Salan á Valitor til Rapyd mun hins vegar líka hafa önnur áhrif á rekstur Arion banka. Hún mun auka umfram eigið fé bankans úr 42 milljörðum króna í 51 milljarð króna, en Arion banki hefur þá skýru stefnu að greiða út umfram eigið fé sitt til hluthafa í formi arðgreiðslna eða með endurkaupum á bréfum þeirra á næstu árum. Á fyrri hluta ársins 2021 greiddi bankinn 2,9 milljarða króna í arð til þeirra og keypti eigin bréf þeirra til baka fyrir alls 14,9 milljarða króna.
Þetta kemur fram í fjárfestakynningu vegna hálfs árs uppgjörs Arion banka sem birt var seint í síðustu viku. Þar sagði enn fremur að stjórn bankans áskildi sér rétt til að halda auka hluthafafund síðar á þessu ári til að leggja til frekari arðgreiðslur til hluthafa í ljósi sterkar eiginfjárstöðu Arion banka.
Stefna sem legið hefur fyrir lengi
Þegar Arion banki var skráður á markað á fyrri hluta ársins 2018 lá fyrir að markmið ráðandi hluthafa væri að greiða sér út eins mikið af eigin fé hans og hægt væri, á sem skemmstum tíma.
Það væri hægt að gera í gegnum breytingu á fjármögnun bankans, með því að draga úr útlánum hans, með því að minnka kostnað í gegnum uppsagnir á starfsfólki, með því að hrinda í gang umfangsmikilli endurkaupaáætlun á hlutabréfum í bankanum og svo auðvitað í gegnum arðgreiðslur.
Þá á átti að selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi Arion banka.
Tímabundið stopp vegna COVID-19
Í byrjun árs 2020 hafði flest í þeirri leikáætlun gengið eftir. Eigið fé Arion banka hafði lækkað úr 225,7 milljörðum króna í 190 milljarða króna frá lokum árs 2017 og fram til loka árs 2019, eða um tæpa 36 milljarða króna.
Til viðbótar töldu greiningaraðilar að bankinn geti búið þannig um hnútanna að það myndi losna um tugi milljarða króna til útgreiðslu þegar árið 2020 er á enda, aðallega með því að minnka útlán sín.
Til stóð að minnka þau um 20 prósent á síðasta ári. Í afkomuspá sem Hagfræðideild Landsbankans vann um uppgjör Arion banka í aðdraganda birtingu ársreiknings hans fyrir árið 2019 var því spáð að arðgreiðslur bankans gætu orðið 50 milljarðar króna á tólf mánuðum. Kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir að þau áform gengu eftir samkvæmt þeirri tímalínu sem lagt var upp með. Samhliða því að Seðlabanki Íslands réðst í að veita bönkunum miklar tilslakanir til að þeir gætu aðstoðað í baráttunni við efnahagslægðina sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, að það væri algjörlega ótækt af Arion banka að íhuga arðgreiðslur eða endurkaup á bréfum við ríkjandi aðstæður.
Um 14 milljarða hagnaður á hálfu ári
Þessi staða hefur nú breyst ansi hratt og Arion banki fékk fyrr á þessu ári heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að ráðast í þau endurkaup á hlutabréfum sem bankinn stefndi á að framkvæma á árinu 2021. Auk þess taldi bankinn í vor að arðgreiðslumarkmið hans séu í takti við það sem heimilt er að gera.
Arion banki fór enda ansi vel í gegnum síðasta ár. Hagnaður bankans nam 12,5 milljörðum króna og hann náði því markmiði sínu á síðasta ársfjórðungi að vera með arðsemi á eigin fé sitt yfir tíu prósentum, en hún var alls 11,8 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.
Gangurinn hefur verið enn betri það sem af er þessu ári. Samtals hagnaðist Arion banki um 13,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Arðsemi eigin fjár á öðrum ársfjórðungi var 16,3 prósent. Heildar eigið fé bankans var 194 milljarðar króna í lok júní og eigið féð án áhrifa af sölunni á Valitor, sem enn þarf að fá samþykki viðeigandi eftirlitsaðila, 42 milljarðar króna. Gangi salan eftir mun umframeigið féð hækka í 51 milljarð króna.
Eigendurnir sem fá mest
Töluverð breyting hefur orðið á hluthafahóp Arion banka á síðustu misserum. Frá því í lok september í fyrra hafa tveir stærstu eigendur bankans á undanförnum árum selt samtals stóran hlut í honum. Um er að ræða vogunarsjóðina Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management. Á örfáum vikum fór eignarhlutur Taconic í Arion banka úr 23,22 prósentum í ekkert. Sculptor seldi sömuleiðis allan 6,12 prósent hlut sinn snemma á þessu ári.
Fleiri vogunarsjóðir, sem komu inn í eigendahóp Arion banka eftir að hafa tilheyrt kröfuhafahópi Kaupþings, hafa líka verið að selja sig niður. Fjórir slíkir, meðal annars þeir tveir áðurnefndu, áttu samanlagt 32,57 prósent hlut í Arion banka fyrir ári. Nú eru sjóðir Eaton Vance þeir einu sem eru eftir í eigendahópnum með 0,84 prósent eignarhlut.
Innlendir fagfjárfestar hafa keypt stærstan hluta þess sem vogunarsjóðirnir hafa selt. Þeir eru að mestu íslenskir lífeyrissjóðir.
Samanlagður eignarhluti þeirra lífeyrissjóða sem birtast á lista yfir 20 stærstu eigendur bankans var 22,42 prósent í byrjun síðasta árs. Í lok september 2020 hafði hann aukist í 29,17 prósent. Nú stendur hann í 42,56 prósentum.
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hafa bætt mest við sig og eiga nú samtals 26,78 prósent eignarhlut í bankanum.
Fleiri lífeyrissjóðir: Stapi, Birta, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífsverk hafa allir líka bætt við sig í Arion banka á síðustu mánuðum.
Langstærsti einkafjárfestirinn í Arion banka í dag er fjárfestingafélagið Stoðir með 4,99 prósent eignarhlut.