Þingmenn Samfylkingar og Pírata sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd hafa skilað inn minnihlutaáliti um frumvarp um stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla. Þeir leggja til að frumvarpinu verði breytt þannig að rekstrarstuðningur sem hver fjölmiðill getur fengið sé 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði og að stuðningur við hvern umsækjanda sé ekki hærri en 50 milljónir króna.
Það myndi þýða að styrkir til stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins: Árvakurs, Sýnar og Torgs, myndu lækka verulega en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að þakið á greiðslum til hvers og eins sé 100 milljónir króna. Þegar greiddir voru út neyðarstyrkir til fjölmiðla í fyrra eftir sömu forsendum og lagðar voru fram í frumvarpinu fékk Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, 99 milljónir króna í sinn hlut. Að sama skapi myndu styrkir til um annarra fjölmiðla hækka þar sem greiðslur til þeirra myndu ekki skerðast jafn mikið og ella. Í fyrra færðust alls 106 milljónir króna frá 20 smærri fjölmiðlum til þriggja stærstu við það að þakið var hækkað úr 50 í 100 milljónir króna.
Undir álitið skrifa Guðmundur Andri Thorsson frá Samfylkingu og Olga Margrét Cilia frá Pírötum. Að öðru leyti en ofangreindu styður minnihlutinn markmið og meginefni frumvarpsins enda sé „rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi með þeim hætti að ástæða er til að hlaupa þar undir bagga.“ Hann leggur því til að frumvarpið verði samþykkt, en með ofangreindri breytingu.
Til stóð að taka frumvarpið til annarrar umræðu á Alþingi í dag en málið var tekið af dagskrá skömmu áður en að sú umræða átti að fara fram.
Breytt í tímabundið stuðningskerfi
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar skilaði sínu nefndaráliti fyrir helgi. Samkvæmt álitinu vill meirihlutinn gera nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þar ber hæst að sett verði þrengri skilyrði um til að teljast stuðningshæfur fjölmiðill. Sú þrenging felur í annars vegar í sér að lágmarksútgáfutíðni prentmiðils þar að vera að minnsta kosti 20 útgáfur á ári og aðrir miðlar sem hljóti styrk þurfi að „miðla nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni á virkum dögum í 20 vikur á ári.“
Í frumvarpinu sem Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, lagði fram í desember stóð að launa- og verktakakostnaður allra sem öfluðu og miðluðu efni væri stuðningshæfur. Meirihlutinn hefur lagt til að þessi skilyrði verði þrengd verulega og að þeir miðlar einir verði stuðningshæfir sem afli og miðli „fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.“
Meirihlutinn vill hins vegar að stuðningskerfið gildi einungis í eitt ár, þ.e. að stuðningur verði greiddur út til fjölmiðla vegna kostnaðar sem féll til á árinu 2020 einvörðungu. Þetta er rökstutt þannig í áliti hans að fram hafi komið sjónarmið um að „skýra þurfi aðferðafræði við útreikning stuðningskerfisins betur og tryggja að fyrirkomulagið verði til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Sömuleiðis þurfi að huga að stöðu smærri fjölmiðla í þessu samhengi. skýra þurfi aðferðafræði við útreikning stuðningskerfisins betur og tryggja að fyrirkomulagið verði til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
Ósammála hlutfalli rekstrarstuðnings en skrifuðu samt undir
Meirihlutinn vill líka taka til skoðunar hvort koma eigi upp samkeppnissjóði til að jafna rekstrar- og samkeppnisstöðu fjölmiðla. „Meiri hlutinn telur æskilegast að fyrirkomulag stuðningskerfisins sem kveðið er á um í frumvarpi þessu verði tekið til nánari skoðunar, m.a. með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum, en verði jafnframt tekið til skoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað á skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn að svo stöddu ástæðu til að um verði að ræða tímabundið stuðningskerfi sem gildi til 31. desember 2021 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árið 2020.“
Undir nefndarálitið skrifuðu allir þingmenn stjórnarflokkanna þriggja: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Nefndarmenn síðastnefnda flokksins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir, gerðu það þó með fyrirvara án þess að sá fyrirvari væri skýrður í álitinu.
Í samtali við mbl.is sagði Bjarkey að fyrirvarar þeirra hafi snúið að hlutfalli rekstarstuðnings sem hver fjölmiðill getur fengið. Einnig hafi þær gert fyrirvara við gildistíma stuðningsins, sem þær hefðu viljað hafa til lengri tíma.
Óbreytt þak og þorrinn til þriggja fyrirtækja
Samkvæmt frumvarpinu stendur til að útdeila 400 milljónum króna í styrki til einkarekinna fjölmiðla. Búið er að gera ráð fyrir þeirri upphæð á fjárlögum yfirstandandi árs.
Hægt verður að sækja um 25 prósent endurgreiðslu á stuðningshæfum kostnaði en stuðningur hvers og eins getur ekki orðið meiri en 25 prósent af fjárveitingum til verkefnisins. Það þýðir að styrkur getur aldrei orðið meiri en 100 milljónir króna.
Það er byggt á svipuðum grunni og sérstakur neyðarstyrkur til einkarekinna fjölmiðla vegna COVID-19, sem greiddur var út í fyrra, en er að mörgu leyti ólíkt fyrri frumvörpum um málið sem lögð hafa verið fram. Meiri áhersla var í neyðarstyrknum og fyrirliggjandi frumvarpi sem stjórnarflokkarnir styðja að koma sem mestum hluta upphæðarinnar sem er til skiptanna til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins.
Sú áhersla birtist í því að hámarksupphæð sem hvert fyrirtæki gæti sótt í stuðningskerfið var hækkuð úr 50 í 100 milljónir króna. Fyrir vikið skertust greiðslur í fyrra sem upprunalega voru ætlaðar 20 smærri fjölmiðlafyrirtækjum um 106 milljónir króna en sama upphæð fluttist til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs. Þessi þrjú fyrirtæki fengu samtals 64 prósent af upphæðinni sem deilt var út. Smærri miðlarnir fengu tæplega 18 prósent af rekstrarkostnaði sínum endurgreiddan í stað þeirra 25 prósent sem til stóð að þeir fengu.
Meirihluti nefndarinnar styður þessa tilhögun áfram en minnihluti nefndarinnar leggur til að þakið verði fært aftur í fyrra horf.