Samfylkingin mun ekki setja aðild að Evrópusambandinu fram sem forgangsmál nema að undangengnu víðtæku samtali og uppfærðri rannsókn á kostum og göllum aðildar. Forgangsmál flokksins er að endurreisa velferðarkerfið og sameina fólk með jafnaðartaug.
Þetta er meðal þess sem fram kom í stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur, nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins sem fram fer um helgina.
Tími breytinga er hafinn hjá Samfylkingunni. Kristrún Frostadóttir tók við sem formaður flokksins í gær. Hún var ein í framboði og hlaut 94,59 prósent greiddra atkvæða. Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fyrrverandi varaformaður Alþýðuflokksins og ráðherra, var sjálfkjörinn í embætti varaformanns.
Ný forysta, nafn og merki
Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra á Seltjarnarnesi, var kjörinn nýr formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hann hafði betur gegn Kjartani Valgarðssyni, sitjandi formanni, með rúmlega 70 prósent greiddra atkvæða.
Jón Grétar Þórsson var kjörinn gjaldkeri flokksins. Hann hafði betur gegn Stein Olav Romslo með 49,64 prósent greiddra atkvæða. Anna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, er nýr ritari flokksins. Hún hlaut 59,77 prósent greiddra atkvæða. Auk hennar var Alexandra Ýr van Erven í framboði ritara.
Fleiri breytingar voru samþykktar á landsfundi flokksins í morgun. Flokkurinn heitir nú Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands. Það er minniháttar breyting á nafni flokksins sem var áður Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands. Tillagan kom frá Arnóri Heiðari Benónýssyni, forseta Ungs jafnaðarfólks (UJ) og forvera hans, Rögnu Sigurðardóttur. Ungt jafnaðarfólk breytti nafni sínu nýverið úr Ungum jafnaðarmönnum. Aðrar tillögur að breytingu á nafni voru dregnar til baka þar sem sátt náðist um þessa tillögu. Áður höfðu Mörður Árnason og Kristján L. Möller, fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar, greint frá því að þeir ætluðu að leggja til að flokkurinn fengi nafnið Jafnaðarflokkurinn.
Nafnabreyting flokksins var ekki það eina sem var samþykkt, merki flokksins hefur einnig verið breytt og er nú rós, alþjóðlegt merki jafnaðarfólks, í stað rauðs hrings eða kúlu.
Grundvallarmál að endurreisa velferðarkerfið
„Breytingarnar, þær byrja strax í dag. Þær byrja hér og nú,“ sagði Kristrún í upphafi stefnuræðu sinnar í dag. Í ræðunni fór hún yfir hennar sýn fyrir flokkinn og fyrir landið, hverju flokkurinn ætlar að breyta og hvers vegna. „Hvernig við ætlum að vinna og hvernig við munum stjórna.“
Helsta verkefni flokksins er, að hennar mati, að endurreisa velferðarkerfið eftir áratug hnignunar. „Þetta er grundvallarmál, sem vinnst ekki með dægurþrasi í stjórnmálum. Fólk þyrstir í forystu í stjórnmálum sem treystir sér í þetta verkefni. Þessu kalli ber okkur að svara. Fólkið í landinu hefur beðið, það bíður enn og Samfylkingin verður að mæta til leiks, tilbúin í þetta mikilvæga verkefni í næstu kosningum,“ sagði Kristrún.
Logi breytti útför flokksins í upprisu og endurnýjun
Logi Einarsson hélt sína síðustu ræðu sem formaður Samfylkingarinnar í gær. Þar minntist hann á að hann hafi verið kallaður útfararstjóri flokksins á sínum tíma en að enginn spái flokknum dauða nú. „Þú breyttir útförinni í upprisu og endurnýjun,“ sagði Kristrún, sem þakkaði Loga fyrir að taka vel á móti henni þegar hún kom inn í flokkinn.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Samfylkingin bætt við sig miklu fylgi þar sem af er kjörtímabili. Flokkurinn fékk 9,9 prósent atkvæða í fyrrahaust en mælist nú með 14,4 prósent fylgi, samkvæmt nýrri könnun Maskínu, og þriðji stærsti flokkurinn á þingi.
„Ég vil að flokkurinn fái ánægjufylgi, traustsfylgi — því það er fylgið sem skilar sér alla leið á kjördag. Ekki bara tímabundið mótstöðufylgi sem tekur ekki tillit til þess hvort fólk treystir okkur til að stjórna eða ekki,“ sagði Kristrún.
Óásættanleg staða í landsmálunum
Staðan í landsmálunum er ekki ásættanleg að mati Kristrúnar og voru síðustu kosningar vonbrigði. „Samfylkingin hefur núna tapað fernum kosningum til Alþingis í röð. Við höfum eftirlátið Sjálfstæðisflokknum áratug til að stjórna þessu landi, óslitinn. Með alvarlegum afleiðingum sem eru að koma betur og betur í ljósi,“ sagði Kristrún, sem telur flokksmenn svíkja sjálfa sig, jafnaðarstefnuna og fólkið í landinu með því að halda áfram á sömu braut eins og ekkert sé.
„Þess vegna segi ég: Nú er kominn tími til að taka það alvarlega að vinna; að vinna traust. Sem þýðir að við verðum að ráðast í breytingar — okkur ber beinlínis skylda til þess. Og það er það sem við erum að gera núna.“
Ofuráhersla á kjarnamál jafnaðarmanna
Breytingarnar sem Kristrún talaði um snúast um að fara aftur í kjarnann með því að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna, það er húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góða atvinnu og kjör fólks.
Trúverðugleiki flokksins byggir líka á trúverðugri efnahagsstefnu og Kristrún vill að efnahagsstefna Samfylkingarinnar taki mið af hagsmunum heildarinnar. „Skilningi á því hvernig velferðarkerfið verður best rekið og fjármagnað. Að skammtímalausnir skila sér oftar en ekki í meiri kostnaði síðar meir — að skuldir finnast víðar en í bókhaldi ríkissjóðs. Stórtækar framfarir á Íslandi velta á því að hér komist til valda stjórnmálaflokkur sem sér þessa stóru mynd — getur veitt landinu forystu með fast land undir fótum og samfellu í hugsun — ekki bara tilviljanakenndum fjárútlátum og stefnulausu aðhaldi sem engum árangri skilar,“ sagði formaðurinn.
Evrópusambandsaðild ekki forgangsmál nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum
Samfylkingin mun ekki reyna að selja fólki Evrópusambandið sem töfralausn undir forystu Kristrúnar. „Enda er það ekki töfralausn. Það hefur kosti og galla. Og það er mikilvægt að Samfylkingin sýni ólíkum sjónarmiðum og áhyggjum fólks virðingu. Það er vel hægt að vera jafnaðarmaður og hluti af Samfylkingunni án þess að vera alveg sannfærður um ágæti aðildar Íslands að Evrópusambandinu,“ sagði Kristrún, sem er sjálf mikill Evrópusinni og eindregið fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.
En það er löngu kominn tími til, að hennar mati, að uppfæra og endurnýja umræðuna um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu, það gangi ekki að þylja upp tveggja áratuga gömul rök sem byggja á kynningu sem flokkurinn stóð fyrir skömmu eftir aldamót.
„Og þess vegna segi ég það hér: Samfylkingin mun ekki setja fulla aðild að Evrópusambandinu fram sem forgangsmál nema að undangengnu víðtæku samtali og uppfærðri yfirferð og rannsókn á kostum og göllum aðildar.“
Kristrún sagði einnig að það verði að vera stór flokkur með breitt umboð sem leiðir mikilvæga umræðu eins og Evrópusambandsaðild. „Þetta er ekki smáflokkamál. Þetta segi ég sem Evrópusinni. Ég er einfaldlega sannfærð um að þetta sé árangursríkasta leiðin til að koma málinu áfram, að sameinast um að fara aftur í kjarna jafnaðarmennskunnar og styrkja okkur þar, breikka umboðið og vera svo leiðandi í umræðunni um alþjóðamál og Evrópusambandið — þegar tækifærið gefst.“
Það sama á við um stjórnarskrána. Kristrún sagði kröfuna um allt eða ekki neitt í stjórnarskrármálum ekki hafa skilað árangri. Breyta þurfi um nálgun og viðurkenna að breytingar á stjórnarskrá munu kalla á málamiðlanir og breitt samstarf flokka á þingi. „Nú hefur málið verið algjörlega stopp í tíu ár. Hvernig getum við komist eitthvað áfram? Við étum ekki fílinn í einum bita — það ætti að vera orðið ljóst að það er ekki raunhæft.“
Vill opna flokkinn
Meginverkefni flokksins á næstunni verður að opna flokkinn. „Að halda áfram að eiga umfangsmikið samtal við fólk um land allt. Við munum boða til efnislegrar umræðu um þá málaflokka sem við setjum í forgang fyrir næstu ár, halda opna fundi og málþing — kalla til sérfræðinga, fólkið á gólfinu, fólk sem er hokið af reynslu og ungt fólk sem vill móta eigin framtíð hér á landi.“
Endurreisn velferðarkerfisins er meðal stórra áskorana sem eru fram undan að mati Kristrúnar, áskorun sem kallar á „kaldan haus og heitt hjarta; kraftmikla forystu fyrir Ísland undir merkjum klassískrar jafnaðarstefnu“.
„Við höfum eftirlátið íhaldsöflunum óslitinn áratug við völd. Og það má ekki líða annar áratugur undir sama stjórnarfari. Það er einfaldlega alltof mikið í húfi. Fyrir vinnandi fólk. Fyrir velferðarkerfið okkar. Fyrir framtíðina í þessu landi.“
„Dæs Framsóknarflokksins og uppgjöf VG“
Kristrún sagði vonleysið hafa sigrað í síðustu Alþingiskosningum. „Dæs Framsóknarflokksins og uppgjöf VG. Er ekki bara best að yppta öxlum, geispa og gefast upp? Þetta var boðskapur Framsóknar,“ sagði Kristrún og landsfundargestir hlógu. „Skiptir máli hvernig þú stjórnar? Nei, það skiptir bara máli hver situr í stólnum og hittir fræga fólkið í útlöndum. Þetta er stefna VG.“
Sjálfstæðisflokkurinn ræður ferðinni í ríkisstjórninni að mati Kristrúnar með því að reka „harða og úrelta stefnu úr fjármálaráðuneytinu“.
„Þau er þreytt. Vonleysið hefur unnið á þeirra vakt. En fólkið í landinu veit að þetta þarf ekki að vera svona. Við höfum hlustað og höldum því áfram.“
Vill koma inn af krafti en er ekki byltingarsinni
Kristrún sagðist ekki vera þekkt fyrir að fara of hægt í sakirnar eða stíga of varlega til jarðar. „Enda vil ég koma inn af krafti og gefa allt sem ég á. En ég vil að það sé alveg skýrt engu að síður að ég er ekki og hef aldrei verið byltingarsinni. Og ég trúi ekki á töfralausnir.“
Framtíðarsýn Samfylkingarinnar fyrir Ísland er skýr að sögn nýs formanns flokksins og hún lofar að flokkurinn muni breyta pólitíkinni og stunda öðruvísi stjórnmál. „Við ætlum að stunda skýra og heiðarlega pólitík. Sem fólk getur treyst. Það sem við segjum verður það sem við meinum og það sem gerum — en ekki bara það sem hver og einn vill heyra hverju sinni. Það er svo sem sagt að vika sé langur tími í pólitík. Og maður veit auðvitað aldrei, en það er hætta á að það séu heil þrjú ár í næstu kosningar.“
Kristrún lofaði að hrista rækilega upp í ástandinu sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum.
„Þessu ástandi vonleysis og uppgjafar. Þetta gengur ekki lengur.“