Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi ráðherra, telur að flokkar sem lýsi því yfir fyrir kosningar að þeir ætli sér ekki að vinna með ákveðnum flokkum þurfi að „eiga það við sig“. Það klagi ekki upp á Sjálfstæðisflokkinn, þrátt fyrir að flokkar á borð við Samfylkingu og Pírata hafi nú þegar boðað að ekki komi til greina að starfa með flokknum í ríkisstjórn.
„Mér sýnist hún nú ekkert ríða mjög feitum hesti frá svona yfirlýsingum, almennt,“ sagði Sigríður um Samfylkinguna í samtali við Kristján Kristjánsson þáttarstjórnanda Sprengisands á Bylgjunni í dag, þar sem farið var yfir stöðu stjórnmála og Sjálfstæðisflokks.
Sigríður sagði hið sama hefði átt við um Bjarta framtíð og Viðreisn eftir að flokkarnir höfðu „hlaupið frá ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum“ árið 2017. „Þessum flokkum var bara refsað í kosningunum þar á eftir,“ sagði Sigríður.
Sigríður sagði að sjálfsögðu væru „þessir vinstriflokkar“ að senda Sjálfstæðisflokknum skilaboð. „Svar okkar við því er ekki að reyna að geðjast þessum flokkum og verða eins og þeir. Út á það ganga ekki stjórnmál. [...] Við megum ekki missa sjónar á því út á hvað Sjálfstæðisflokkurinn gengur,“ sagði Sigríður.
Í viðtalinu á Sprengisandi ræddi Sigríður um stöðuna í Sjálfstæðisflokknum og velti því upp hvort flokkurinn væri kannski „allt of mikið að elta aðra flokka í stefnumálum“ og þá á sama tíma væru meginskilaboð flokksins – um að lágmarka ríkisafskipti og umsvif ríkisins – að þynnast út.
„Flokkurinn þarf kannski að brýna sig aðeins í þessum skilaboðum sínum,“ sagði Sigríður.
Skildi lítið í Morgunblaðsgrein Friðjóns
Til umræðu kom grein Friðjóns R. Friðjónssonar miðstjórnarmanns í Sjálfstæðisflokknum frá því fyrr í vetur þar sem hann sagði flokkinn vera með ásýnd flokks kyrrstöðu.
Sigríður sagðist lítið hafa skilið í grein Friðjóns. Hann hefði aðallega talað um sjávarútvegskerfið og í fáum greinum væru meiri breytingar en akkúrat þar, auk þess sem þar færi mesta nýsköpunin fram.
„Ég ætla ekki að svara fyrir þessa grein. Ég er ekki sammála því að flokkurinn sé gamaldags flokkur og standi ekki fyrir breytingar. Ég held kannski þvert á móti að menn hafi viljað breyta allt of miklu allt of hratt og þannig misst fókusinn á skilaboðunum, misst fókusinn á því sem skiptir máli, og það er að veita stjórnmálamönnum aðhald, ekki þó með því að færa völd frá stjórnmálamönnum inn í embættismannakerfið eins og hefur verið mjög mikið hérna og verið látið átölulaust allt of mikið af öllu stjórnmálalífinu. Þetta eru þau skilaboð og aðhald sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að veita,“ sagði Sigríður Á. Andersen.