Samgöngukostnaður er 85 prósentum hærri á Íslandi en að meðaltali innan landa Evrópusambandsins. Hvergi í Evrópu er samgöngukostnaðurinn eins mikill. Frá þessu er greint í umfjöllun á vefsvæði Schengen Visa News sem unnin er upp úr tölfræðigögnum frá Eurostat.
Kostnaður við samgöngur er einnig hár á hinum Norðurlöndunum en Svíþjóð og Noregur raða sér í næstu sæti á eftir Íslandi á listanum. Í Svíþjóð mælist kostnaðurinn 79 prósentum hærri en meðaltalið í Evrópu en 61 prósent í Noregi. Finnland kemur næst Norðurlanda á listanum, þar er verðlag tæplega 39 prósentum hærra en gengur og gerist í ESB en samgöngur eru ögn dýrari á Írlandi. Af Norðurlöndunum er kostnaður vegna samgangna lægstur í Danmörku, hann mælist engu að síður tæpum 17 prósentum hærri en meðalkostnaður innan ESB.
Kostnaður vegna farartækja til eigin nota er aftur á móti hæstur í Danmörku, 38 prósentum hærri en meðaltalið innan ESB. Ísland ratar í fjórða sæti þess lista, á eftir Noregi og Hollandi. Hér á landi er kostnaður vegna farartækja til eigin nota 16 prósentum hærri en í ríkjum ESB.
Lægstur er samgöngukostnaðurinn í Búlgaríu, rétt rúmlega helmingur af meðaltalinu innan álfunnar. Þar á eftir koma Rúmenía, Pólland og Tékkland. Í öllum þessum löndum er kostnaðurinn rúmlega 40 prósentum undir meðaltalskostnaði.
Gisting, matur og menning dýrust á Norðurlöndum og í Sviss
Einnig er fjallað um verðlag á gisti- og veitingastöðum innan álfunnar í umfjöllun Schengen Visa News og Ísland er einnig á meðal dýrustu landa í þessum flokki. Hér á landi er verðlag á gisti- og veitingastöðum tæpum 63 prósentum hærra en að meðaltali innan ESB. Verðlag í þessum flokki er hærra í einungis tveimur löndum, Sviss og Noregi. Í Sviss er verðlagið 68,7 prósentum yfir meðallagi.
Þessi sömu lönd, Norðurlöndin og Sviss, eru einnig dýrust þegar kemur að verðlagi á afþreyingu og menningartengdum viðburðum. Verð í þeim flokki er á bilinu 30 til 50 prósentum hærra en gengur og gerist hjá aðildarríkjum ESB.
Hagstofa Íslands birti í vikunni mynd á Facebook-síðu sinni sem sýnir verðlagsvísitölu fyrir mat og drykk í Evrópu á síðasta ári. Þar sést að á Íslandi er matur og drykkur 39 prósentum dýrari en innan ESB. Í einungis tveimur löndum er matarkarfan dýrari, í Noregi og Sviss en í Sviss er verðið 66 prósentum yfir meðaltali ESB. Hér á landi kosta föt og skór einnig meira en í öllum öðrum löndum Evrópu. Verðlag í þessum vöruflokki er 35 prósentum hærra en meðaltalið innan ESB, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd frá Hagstofu Íslands.