Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir að fyrirtæki sem nýta auðlind þjóðarinnar verði einnig að standa undir meiri kröfum en aðrir til samfélagslegrar ábyrgðar. „Þau verða að vinna í sátt við samfélagið sem þau starfa í, fylgja lögum og reglum og ekki bara að greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna heldur líka sýna eigandanum, sem er íslenskt samfélag, virðingu og auðmýkt.“
Þetta sagði hún í störfum þingsins á Alþingi í dag en tilefnið er Samherjamálið svokallað sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu.
„Þrátt fyrir afsökunarbeiðni Samherja, sem var löngu tímabær en er mjög óljós, þá halda áfram að birtast fréttir af framgöngu forsvarsmanna fyrirtækisins gagnvart lykilstofnunum samfélagsins. Samherji hefur gengið óvenjuhart fram gegn fjölmiðlafólki, krafist þess með bréfi að ráðherra gefi skýringar á ummælum sínum hér í ræðustóli Alþingis og í morgun kom fram að fyrirtækið hafi haldið áfram vegferð sinni gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands og seðlabankastjóra. Ég endurtek það sem sagt var hér í gær: Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla hér í ræðustól,“ sagði hún en þarna vísar hún í ummæli kollega síns, Guðmundar Andra Thorssonar þingmanns Samfylkingarinnar, en í gær sagði hann að alþingismenn skulduðu Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla í ræðustól þingsins.
Vill raunverulegar breytingar á auðlindaákvæðinu
Rósa Björk sagði að stóra málið væri að samfélagið þyrfti með einhverjum hætti að geta tekist á við svona framgöngu. „Við verðum að geta tryggt vernd fjölmiðlafólks betur gegn ágangi stórfyrirtækja og tryggja nægjanlegar fjárheimildir til lögreglu, saksóknara og annarra eftirlitsstofnana til að hefja rannsókn ef upp kemur grunur um refsivert athæfi. Kerfið okkar verður nefnilega að virka og löggjafinn, við hér á Alþingi, verður að veita starfsfólki grunnstofnana samfélagsins vernd fyrir svona ásókn, eins og seðlabankastjóri sagði sjálfur.“
Sagðist hún hafa vonast til þess að taka mætti afsökunarbeiðni Samherja sem dæmi um einlægan vilja þessa mikilvæga fyrirtækis til sátta við samfélagið. „En því miður virðist skorta auðmýkt gagnvart því að auðlindin sem fyrirtækið hefur fengið sinn arð af að nýta er í eigu þjóðarinnar allrar.“
Vonaðist hún jafnframt til þess að þessi mál öllsömul hjálpuðu þingmönnum til að ná saman um raunverulegar „en ekki sýndarbreytingar á auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. Oft var þörf en nú er nauðsyn.“
Alþingismenn heyra ekki undir Samherja
Guðmundur Andi Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði á þingi í gær undir sama lið að alþingismenn sæktu ekki til Samherja umboð sitt til starfa á Alþingi heldur til kjósenda, til almennings í landinu.
„Stundum sér maður eitthvað sem verður til þess eiginlega að mann setur hljóðan. Á hvaða heilafoksfundi skyldi hafa komið upp sú hugmynd að láta lögmann á virðulegri lögmannsstofu senda hæstvirtan menntamálaráðherra bréf í valdsmannslegum kansellístíl með ábúðarfullum þéringum og spurningum sem ráðherranum er gefinn frestur til að svara, án þess að afleiðingar þess að hunsa þann frest séu nánar tilgreindar, allt út af fyrirspurn sem hún svaraði í þessum stól frá mér um það hvort hún styddi Ríkisútvarpið sem heyrir undir þann ráðherra.
Hæstvirtur ráðherra sagðist gera það og notaði síðan orðalag sem forsvarsmenn Samherja hafa sjálfir notað um sína framgöngu í afsökunarbeiðni sem þeir sendu út í kosmósið, að þeir hefðu gengið of langt. Fyrir þau orð er ráðherrann krafin sagna með sérstöku lögmannsbréfi í ábyrgðarpósti, væntanlega, eins og hér sé jafnvel til skoðunar að hún hafi brotið einhver lög með ummælum sínum. Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega sérkennilegt samskiptaform að standa í bréfaskiptum af þessu tagi og lýsir hugsunarhætti manna sem telja sig ekki ríki í ríkinu heldur ríki yfir ríkinu,“ sagði hann.
Enn fremur benti hann á að alþingismenn heyrðu ekki undir Samherja. „Alþingismenn sækja ekki til Samherja umboð sitt til starfa hér heldur til kjósenda, til almennings í landinu. Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla í ræðustól hér og lúta að framgöngu og ummælum sem þegar liggja fyrir.“