Samherji Ísland, útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki að öllu leyti í eigu Samherjasamstæðunnar, hagnaðist um næstum fjóra milljarða króna á árinu 2021, ef miðað er við meðalgengi evru á síðasta ári, en útgerðin gerir upp í þeirri mynt. Alls gerir Samherji Ísland út sex skip og rekur landvinnslu á Dalvík.
Útgerðin er með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent, samkvæmt síðustu birtu tölum.
Í ársreikningi félagsins sem er nú aðgengilegur í fyrirtækjaskrá kemur fram að rekstrarhagnaður hafi verið um 4,6 milljarðar króna, en þá var búið að gera ráð fyrir greiðslu veiðigjalda upp á um 470 milljónir króna sem hluta af kostnaðarverði seldra vara. Samherji Ísland borgaði svo um 900 milljónir króna í tekjuskatt. Samtals fóru því tæplega 1,4 milljarðar króna til ríkissjóðs frá félaginu á árinu 2021.
Stjórn Samherja Ísland ákvað að greiða út 40 prósent af hagnaði ársins í arð vegna síðasta árs, sem eru þá um 1,6 milljarðar króna. Greidd veiðigjöld voru því undir 30 prósent af arðgreiðslunni sem greidd var upp í móðurfélagið Samherja hf.
Færðu Samherja hf. til barnanna
Tilkynnt var opinberlega um eigendaskipti á Samherja hf. 15. maí 2020. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna. Sú tilfærsla átti sér þó stað á árinu 2019.
Stærsti eigandi Samherja hf. í dag er félagið K&B ehf., sem er í 2,1 prósent eigu Þorsteins Más, forstjóra Samherja, 49 prósent eigu Baldvins Þorsteinssonar, sonar hans, og 48,9 prósent eigu Kötlu Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Más. Það á 44,1 prósent í félaginu. Félagið Bliki ehf., sem Samherji á sjálfur 32,1 prósent í og flokkast þar með sem dótturfélag samstæðunnar, er næst stærsti einstaki eigandinn með 11,9 prósent hlut. Samherji keypti 10,3 prósent hlut í Blika í fyrra auk þess sem dótturfélagið Framinvest Sp/f á 28,2 prósent eignarhlut í Blika. Krosseignatengsl félaganna eru færð út til lækkunar á eigin fé í reikningum Samherja. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi Framinvest sp/f, sem er með heimilisfesti í Færeyjum.
Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín, börn útgerðarstjórans Kristjáns Vilhelmssonar, eiga samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár en ekkert þeirra meira en 8,5 prósent hlut hvert.
Miklar tekjur af kvótaleigu
Samherji Ísland heldur á aflaheimildum sem eru bókfærðar á um tíu milljarða króna. Upplausnarverð þeirra er þó án efa mun hærra, en aflaheimildir eru oftar en ekki bókfærðar á mun lægra virði en markaðsvirði í ársreikningum útgerða.
Í ársreikningi félagsins kemur fram að þorri tekna þess hafi verið vegna veiða og vinnslu í fyrra. Þó er tiltekið að kvótaleiga hafi skilað Samherja Íslandi rúmlega milljarði króna í tekjur í fyrra, miðað við meðalgengi evru á því ári.
Því hafði Samherji Ísland rúmlega 600 milljónum krónum meira í tekjur af því að leigja út kvóta en félagið greiddi í veiðigjöld á síðasta ári. Tekjur þess af kvótaleigu rúmlega tvöfölduðust milli ára.
Samherji hefur brugðist við fréttaflutningi Kjarnans og bent á að Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji Ísland, sem bæði séu sjálfstæð félög en að öllu leyti í eigu Samherja hf., samnýti veiðiheimildir til að afla hráefnis til vinnslu á Dalvík og Akureyri. „Viðskipti milli þessara félaga, m.a. með veiðiheimildir, eiga að vera gagnsæ og frá þeim ber að greina svo sem gert er í reikningum félaganna. Félögin eru jafnframt samsköttuð. Hér er því ekki um raunverulegar leigugreiðslur til þriðja aðila að ræða heldur innbyrðis viðskipti innan Samherja hf. sem ber að greina frá með þessum skilmerkilega hættí.”
Í ársreikningnum er reiknað út svokallað virkt skatthlutfall félagsins. I því felst að 20 prósent fyrirtækjaskattur er lagður saman við ófrádráttarbæran kostnað, mismun á áætluðum og álögðum sköttum og svo er gengismunur dregin frá, ef hann er jákvæður, líkt og hann var í fyrra hjá Samherja Íslandi. Miðað við þessa útreikninga var virkur tekjuskattur félagsins 18,6 prósent á árinu 2021 og lækkaði úr 25,1 prósent árið áður, þegar gegnismunur var neikvæður.