Samkeppniseftirlitið hefur gefið heimild fyrir sölu á fjarskiptainnviðum sínum til Digital Bridge Group Inc. sem er sjóður í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony. Sýn greindi frá samþykkinu með tilkynningu á vef Kauphallarinnar í dag.
Samkvæmt tilkynningunni telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til að aðhafast meira í málinu, en Sýn hyggst ætla að leigja aftur innviðina, sem innihalda meðal annars símamöstur, frá kaupendunum.
Ríkisstjórnin fylgist með innviðasölu
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá hefur þjóðaröryggisráð fundað um sölu íslenskra fjarskiptafyrirtækja á eigin innviðum, en að mati ráðsins er full ástæða til að fylgjast með henni.
Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins vinnur nú að tillögum að heildstæðri löggjöf um fjárfestingar í þýðingamiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis. Þess háttar löggjöf hefur litið dagsins ljós í Noregi, Danmörku og Finnlandi á síðustu árum, auk þess sem unnið er að svipuðum tillögum í Svíþjóð. Búist er við því að nefndin skili tillögum sínum í janúar á næsta ári.
Síminn til franskra fjárfesta
Í síðasta mánuði tilkynnti Síminn frá því að franska sjóðsstýringarfyrirtækið Ardian France SA hafi gert samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála í tenglsum við mögulega sölu á dótturfélaginu Mílu. Þessi sala verður einnig háð samþykki yfirvalda, en Síminn segist standa í viðræðum við hið opinbera til að tryggja að rekstur innviða félagsins samrýmist þjóðaröryggishagsmunum hér eftir sem hingað til.