Efnahagsráðherra Grikklands, Giorgos Stathakis, sagði í viðtali við BBC í dag að lánardrottnar Grikklands hefðu samþykkt tillögur þeirra að umbótum. Það þýði að nú styttist í að hægt verði að ganga frá samkomulagi um áframhaldandi neyðarlán til Grikkja frá Seðlabanka Evrópu, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Nýr skattur á auðmenn
Nýr skattur verður lagður á fyrirtæki og auðugt fólk og virðisaukaskattur verður hækkaður á ýmsa hluti, samkvæmt nýju tillögunum. Stathakis sagði við Robert Peston á BBC að hann væri sannfærður um að tillögur Grikkja hefðu bundið endi á þráteflið. Samkvæmt nýju tillögunum yrði ekki ráðist í frekari lækkanir á lífeyri eða launum í opinbera geiranum og virðisaukaskattur á rafmagn verður ekki hækkaður.
Þá sagði Stathakis að stjórnvöld hefðu ákveðið í samráði við AGS og stjórnvöld í evruríkjunum að stefna á að afgangur af fjárlögum verði eitt prósent af vergri landsframleiðslu á þessu ári, tvö prósent á næsta og þrjú prósent árið 2017.
Ekki samið um loforð Syriza
Þrátt fyrir að stjórnarflokkurinn í Grikklandi, Syriza, hafi barist fyrir því að skuldir ríkisins verði lækkaðar, verður ekki samið um það. Stathakis sagði þó í viðtalinu að hann hefði trú á því að skuldaniðurfellingar yrðu á dagskránni á næstu mánuðum.
Lítið hefur þokast í viðræðum Grikkja við lánardrottna sína undanfarna fimm mánuði, sem þýðir að Grikkir hafa ekki fengið síðustu greiðsluna frá þeim upp á 7,2 milljarða evra.
Grikkir sendu frá sér nýjar tillögur að umbótum í nótt, og þeim var almennt vel tekið og þær sagðar vera í áttina að því sem lánardrottnar vilja. Vegna þess hversu seint þær komu fram höfðu fjármálaráðherrar evruríkjanna þó ekki getað kynnt sér þær vel fyrir fund sinn í Brussel í dag, og Jeroen Dijsselbloom, forseti evruhópsins svokallaða, sagði tillögurnar umfangsmiklar en það ætti eftir að reikna út hversu mikil áhrif þær hefðu efnahagslega. Búist er við því að fjármálarráðherrar evruríkjanna hittist aftur á fimmtudag til að ræða málin.
Meeting now with the President of the European Council, Mr. Tusk. @eucopresident #Greece #EuroSummit #EUCO pic.twitter.com/f9TiinSsm9
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) June 22, 2015