Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að kjarasamningarnir sem undirritaðir voru síðastliðinn föstudag verðir „dýrir“ og muni setja „þrýsting á hagkerfið“. Samningar VR, Eflingar, ná til á milli 65 til 70 þúsund vinnandi einstaklinga. „Ég tel að það sé verið að lágmarka tjón af því sem hefði getað orðið, ef ítrustu kröfur hefðu náð fram að ganga,“ segir Þorsteinn.
Skrifað var undir þrjá mismunandi samninga, kjarasamninga VR og LÍV, kjarasamninga SGS og kjarasamninga Flóabandalagsins. Þorsteinn segir að samningarnir séu ekki eins kostnaðarsamir og sviðsmyndin sem Seðlabanki Íslands kynnti á kynningarfundi Peningamála. Þá var gert ráð fyrir ellefu prósent almennri launahækkun og var það mat Seðlabankans að slíkar hækkanir gætu reynst dýrkeyptar; leitt til mikillar verðbólgu, hærri vaxta, meira atvinnuleysis og minni hagvaxtar.
[Sp. blm.] Hvernig eru þessi samningar, sem nú hafa verið undirritaðir, í samanburði við það sem seðlabankinn dró upp?
„Þeir fela í sér umtalsvert minni kostnað en seðlabankinn gerir ráð fyrir, en ég geri ekki lítið úr þeim þrýstingi sem samningarnir munu setja á hagkerfið, og mikilvægi þess að horfa til framleiðni í hagkerfinu. Ég er bjartsýnn á að fyrirtæki muni reyna allt til þess að setja þessar hækkanir ekki út í verðlag, og grípa ekki til uppsagna heldur hagræða með öðrum hætti. Síðan er auðvitað stóra málið að halda áfram vextinum og endurreisnarstarfinu. Fyrirtæki hafa verið að vaxa og ná betri tökum á rekstrinum, eftir því sem staðan hefur almennt batnað undanfarin misseri, og það er stóra verkefnið framundan að viðhalda almennum bata og kaupmætti fólks. Við höfum séð tákvæð teikn í þeim efnum,“ segir Þorsteinn.